Ástæða til að óska Óperunni til hamingju

Mynd:  / 

Ástæða til að óska Óperunni til hamingju

11.03.2019 - 19:50

Höfundar

„Mig langar aftur,“ segir gagnrýnandi Menningarinnar um La Traviata sem Íslenska óperan frumsýndi í Eldborg á laugardag í leikstjórn Kanadamannsins Oriola Tomson. Söngur og tónlistarflutningur hafi verið frábær og uppfærslan í heild einkennst af sterkri og faglegri sýn.

La Traviata, eða hin fallna eða hin bersynduga, eftir Verdi, var fyrst sýnd í Feneyjum árið 1853 og er ein ástælasta óperan. Hún gerist í París og segir frá gleðikonunni Violettu og greifasyninum Alfredo sem fella hugi saman. Faðir Alfredos óttast hneykslið sem það mun valda og sannfærir Violettu um að yfirgefa Alfredo og þykjast unna öðrum.

Eitt af krúnudjásnum óperubókmenntanna

La Traviata er ein vinsælasta ópera fyrr og síðar. Helgi Jónsson tónlistarfræðingur segir að það sé ekki að undra, hún sé meistaralega samin og eitt af krúnudjásnum óperubókmenntanna.

„Svo á þessi saga, sagan um frelsi, ástir og örlög, í þeirri mynd sem hún birtist okkur þarna, hún á sér birtingarmyndir í t.d. bíómyndinni Pretty Woman, þar sem nákvæmlega sama sögn er tekin og unnið með hana í nútímaformi.“

Helgi er hrifinn af uppfærslunni. „Það er áskorun fyrir hvern óperustjóra og hans teymi að takast á við svona þekkt stykki því viðmiðin eru svo mörg en mér fannst takast virkilega vel til að þessu sinni.“

Herdís Anna og Elmar skína

Með hlutverk Violettu fer Herdís Anna Jónasardóttir. „Herdís Anna er algjörlega frábær söngkona. Hún leysti hlutverk Violettu af mikilli fagmennsku og listfengi. Að því sögðu var hún óvenjulega létt sem Violetta. Hún hefur létta og bjarta rödd miðað við það sem maður hefur heyrt og og þekkir. En það breytir því ekki að ég var ótrúlega fljótur að gleyma þeim áhyggjum mínum og naut kvöldsins í meðförum hennar. Þetta er erfitt hlutverk, hún er á sviðinu eiginlega allan tímann, þannig að það mæðir mikið á henni en hún leysti þetta frábærlega.“

Elmar Gilbertsson er í hlutverki Alfredos Germont, en Garðar Thor Cortes syngur það á móti honum. „Elmar sýndi á sér dramatískari hlið en ég er vanur að sjá hann í en mér fannst hann algjörlega frábær, bæði í leik og söng. Það var hvergi snöggan blett að finna á frammistöðu hans á laugardag. Enn einn sigurinn fyrir Elmar finnst mér. Þetta er viðkæmt hlutverk, hann þarf að túlka afbrýðisemi og ást og reiði. Allar tilfinningar komust mjög vel til skila. hann söng beint inn í hjartað á okkur.“

Hrólfur Sæmundsson er í þriðja burðarhlutverkinu sem faðir Alfredos, sem stíar elskendunum í sundur. „Ég er mjög hrifinn af Hrólfi sem söngvara og hef séð hann gera margt frábærlega en ég er ekki jafn afdráttarlaust jákvæður gagnvart hans frammistöðu og gagnvart Elmari og Herdísi Önnu,“ segir Helgi. „Hann gerði margt ótrúlega vel en mér fannst sú leikstjórnarlega ákvörðun að gera hann að hálfgerðum öldungi á sviðinu gera persónuna svolítið flata.“

Nostrað við smáatriðin

Bjarni Frímann Bjarnason stjórnar hljómsveitinni og segir Helgi hann greinilega hafa nostrað við hvert smátriði svo unun hafi verið á að hlýða. „Kórinn, undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar, var líka algjörlega frábær. Í raun býst maður ekki við öðru frá kór Íslensku óperunnar, hann er samstilltur hópur og sveik ekki frekar en áður.“

Þá segist Helgi hafa hrifist af þeirri ævintýraveröld sem leikmyndahönnuðurinn Simon Guilbault, Sébastien Dionne búningahönnuður, Erwann Bernard ljósahönnuður og Félix Fradet-Faquy vídeóhönnuður sköpuðu á sviðinu. „Þetta er órætt í tíma og rúmi, þannig séð. Litlar tilfærslur á sviði sem gera mikið, aðallega unnið með ljós og vídeó. Það virkar mjög vel í mínum augum og mjög sterk heildræn sýn sem fagfólkið hefur í þessari uppfærslu.“

Helgi segir að afraksturinn sé vel heppnuð kvöldstund. „Mig langar aftur með dóttur mína. Hún er tólf ára og er að læra söng og mér finnst eins og þetta sé eitthvað sem hún verður að sjá. Það eru góð meðmæli. ef maður vill fara aftur þá er eitthvað rétt í gangi. Þetta er frábær sýning. Ég segi til hamingu, Íslenska óperan.“

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Skylda óperustjórans að setja upp La Traviata