Assange fær að dvelja í sendiráðinu

30.05.2017 - 06:30
epa05473132 (FILE) A file photograph dated 19 August 2012 of Julian Assange (back, R) delivering a statement on the balcony inside the Ecuador Embassy, London as police officers stand guard below. According to news reports on 11 August 2016, Ecuador has
 Mynd: EPA
Lenin Moreno, nýkjörinn forseti Ekvador, segir ríkið tilbúið að veita Julian Assange áframhaldandi hæli í sendiráði Ekvadors í Lundúnum, þrátt fyrir að hann sé ekki hlynntur tölvuþrjótum eins og honum. Assange hefur dvalið þar frá árinu 2012 til að forðast alþjóðlega handtökuskipun sem gefin var út á hendur honum.

Moreno, sem tók við forsetaembættinu í þessum mánuði, er mun harðorðari í garð Assange en forveri hans, Rafael Correa. Assange er stofnandi lekasíðunnar WikiLeaks, sem tekið hefur á móti trúnaðargögnum og birt almenningi. Í kosningabaráttunni varaði Moreno Assange við því að reyna að hafa áhrif á stjórnmál í Ekvador. Hann sagði Assange tölvuþrjót, sem hann sé persónulega á móti. Hins vegar sagðist Moreno virða stöðuna sem Assange búi við.

Alþjóðleg handtökuskipun var gefin út á hendur Assange vegna nauðgunarkæru sem beið hans í Svíþjóð. Sænskir saksóknarar felldu niður ákæruna fyrr í þessum mánuði og vonaðist Assange þá til að geta farið út úr sendiráðinu frjáls ferða sinna. Því var ekki að skipta því breska lögreglan vill handtaka hann fyrir að rjúfa skilorð sitt þegar hann sótti hæli í ekvadorska sendiráðinu. Moreno vill veita Assange áframhaldandi hæli þar sem breska lögreglan sé ekki tilbúin til að leyfa honum að ganga frjálsum.

Assange kveðst saklaus af nauðgunarákærunum. Hann telur að ef hann hefði verið framseldur til Svíþjóðar hefði hann verið fluttur til Bandaríkjanna þar sem réttað yrði yfir honum vegna opinberunar hans á fjölda þarlendra trúnaðargagna.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi