Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ásökun um frændhygli rakalaus þvættingur

10.02.2015 - 19:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra styður skattrannsóknarstjóra til að kaupa gögn um eignarhald Íslendinga erlendis ef embættið telur þau nýtast. Hann segir að engin grið verði gefin þeim sem borga ekki skatta og vísar ásökunum um frændhygli á bug.

Mikið hefur verið rætt um hvernig eigi að standa að því að kaupa eigi gögn sem sögð eru sýna eignarhald Íslendinga í erlendum aflandsfélögum. Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri sagði í tilkynningu í morgun að ekki hafi verið hægt að uppfylla skilyrði fjármálaráðuneytisins um að greitt yrði hlutfall af því sem innheimtist vegna gagnanna. Þetta hafi verið tilkynnt ráðuneytinu fyrir tveimur vikum en ekkert svar borist.

Ráðuneytið svaraði þessu í dag. Þar kemur fram að í gögnunum væru upplýsingar um 416 mál, sem seljandinn vildi selja á 150 milljónir króna. Annar möguleiki væri að fá 2.500 evrur - sem eru ríflega 373 þúsund krónur - fyrir hvert mál.

Skilyrði ráðuneytisins ekki ströng

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir hlutfall af innheimtu aldrei hafa verið hugsað sem strangt skilyrði. Vilji hafi þó verið til að láta á það reyna.

„Nú hefur komið í ljós að það getur ekki gengið á þeirri forsendu og þá verður við því brugðist. Ráðuneytið mun styðja skattrannsóknarstjórann í því að sækja gögnin, telji hann þau mikilvæg til að stunda sínar rannsóknir.“

Bjarni segir að gögnin komi ekki beint frá fjármálastofnunum eins og gögn HSBC-bankans sem fjallað hefur verið um. En þau geti engu að síður nýst og þegar hafi komið fram vísbendingar um að skattskil hafi ekki verið að öllu leyti rétt. Bjarni segir enga sérstaka ástæðu til að vantreysta seljandanum.

„Það er engin ástæða sérstök til að vantreysta þeim sem samskipti hafa verið við eftir því sem ég kemst næst.“

Ásökun um frændhygli þvættingur

Bjarni vísar á bug ásökunum, meðal annars frá stjórnarandstöðunni, um að framganga hans í málinu sé til þess að hygla ættingum hans. Hann hafði aðeins sagt að málið gengi of hægt.

„Og það er bara mín skoðun - hefur ekkert með svona getgátur og árásir á mig persónulega að gera, enda er þetta algjörlega rakalaus þvættingur. Sú ríkisstjórn sem nú situr ætlar ekki að gefa nein grið þeim sem ekki taka þátt í samfélagslegum skyldum sínum með því að borga skatta.“

Stjórnarandstaðan gagnrýnir seinagang stjórnvalda

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar sagði á sunnudag að það væri lítilmannlegt af fjármálaráðherra að hengja skattrannsóknarstjóra vegna vandræðagangs í skattagagnamálinu. Vandræðagangur í málinu sé á ábyrgð ráðherrans. Stjórnarandstaðan væri til í að hleypa frumvarpi um kaup á skattagögnum í gegnum þingið á einum degi.

Katrín Jakobsdóttir formaður vinstri grænna segir mjög mikilvægt að Alþingi álykti um þetta mál með skýrum hætti og mun leggja fram þingsályktunartillögu til að ýta við málinu.

„Okkur finnst bara mjög mikilvægt að fá skýr skilaboð. Þau hafa ekki komið fram og þá þarf kannski alþingi að tala með skýrum rómi.“

Hún segir einnig  brýnt að skerpa reglur um kaup á gögnum sem þessum.

„Ríkisstjórnir um alla Evrópu hafa verið að kaupa sambærileg gögn þegar að efnahagslegu hagsmunirnir eru metnir miklir  það liggur líka fyrri að þetta eru fjármunir eru að fara út úr okkar samfélagi og er verið að geyma erlendis í ákveðnum tilgangi og þar hlítur ríkið líka að hafa ákveðinn rétt.  Ef ríkisstjórnin ræður ekki við að klára málið þá getur alþingi talað í þessu máli.“

Efnahags- og viðskiptanefnd fjalli um málið

Guðmundur Steingrímsson formaður Bjartrar framtíðar hefur beðið um fund í efnahags- og viðskiptanefnd til að fá upplýsingar um hvað tefur.

„Þetta er bara skrýtið og mér finnst undarlegt að það sé ekki búið að kaupa þessar upplýsingar. Og ef það er ekkert sem hindrar það að við kaupum þessi gögn og ef það er skynsamlegt þá eigum við auðvitað að gera það.“

Birgitta Jónsdóttir talsmaður Pírata segir fráleitt að segja að gögn uppljóstrara séu illa fengin. Það sé málflutningur sem sé einungis til þess að tefja málið.

„Ef að Þjóðverjar með sína hefð fyrir lýðræði og íhaldssemi þora að taka við svona gögnum því að þeir sjá að það hagur í því fyrir sína þjóð hvað er þá að hér. Af hverju þorir fjármálaráðherra ekki að stíga þetta skref? Þannig að það er alveg ljóst að annað hvort verður þingið að gera það fyrir hann eða þjóðin.“