Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ásókn á Kirkjufell lyftistöng og áskorun

02.02.2019 - 20:42
Mynd með færslu
 Mynd:
Ásókn ferðamanna að Kirkjufelli hefur reynst blessun fyrir Grundfirðinga en einnig krefjandi verkefni. Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri í Grundarfirði segir að sveitarfélög þurfi stærri hluta af tekjum af ferðamönnum. 

Þótt það sé utan hinnar hefðbundnu alfaraleiðar er Kirkjufell við Grundarfjörð orðinn einn af vinsælustu ferðamannastöðum landsins. Á flestum listum yfir ómissandi náttúruperlur hér á landi er Kirkjufellið ofarlega á blaði. Þetta hefur auðvitað verið mikil lyftistöng fyrir Grundfirðinga, en ekki án kostnaðar. 

„Kirkjufell er dæmi um áfangastað sem hefur sprottið bara af sjálfu sér,“ segir Björg. „Flóknust er kannski þessi hlutverkaskipting. Landeigendur fá þetta verkefni, sem eru ekkert endilega í ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan er náttúrlega að nýta þessa auðlind sem landið okkar er. Sveitarfélagið kemur að og styður, fjármagnið liggur hins vegar hjá ríkinu. Og þarna þarf bara verulega að hafa fyrir því að samræma og fá allt til að fúnkera saman til að þessi uppbygging, innviðauppbygging margnefnda geti átt sér stað með eðlilegum hætti.“

Grundarfjarðarbær fékk í fyrra rúmlega 60 milljóna króna styrk úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða til uppbyggingar í kringum Kirkjufellsfoss, þar sem ferðamenn hópast til að taka myndir af fjallinu. Björg segir að búið sé að deiliskipuleggja og hanna framkvæmdirnar.

„Þetta er auðvitað ekki hrist fram úr erminni einn tveir og þrír á einu ári,“ segir Björg. Styrkir sem þessir séu ekki endilega rétta leiðin. Hún bendir á að beinar tekjur af ferðaþjónustu renni nú meira og minna til ríkisins í formi virðisaukaskatts, gistináttagjalds og tekna af akstri.

„Og þar finnst mér að sveitarfélögin séu hreinlega bara allt of lin við það að herja á það hver þeirra hlutur ætti að vera í þessari uppbyggingu,“ segir Björg. 

Erlendir göngumenn hafa farist á Kirkjufelli tvö síðustu sumur eftir að ásóknin tók að aukast. „Meðal annars hefur aukningin orðið í því að fólk telur sig geta og eiga erindi upp á Kirkjufell. En Ísland er hættulegt land og það verður ekkert hægt að loka það af eða annað slíkt. Okkar hlutverk er að koma skilaboðum á framfæri um hættur og um aðgengi og slíkt,“ segir Björg.