Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Áskoranir en óvíst um vandamál

24.09.2015 - 21:57
The helicopter with German Chancellor Angela Merkel and Environment Minister Sigmar Gabriel flies over the Eqi Glacier in lulissat, Greenland, Denmark, 17 August 2007. Upon conclusion of her visits to Greenland Merkel voiced her optimisim regarding the
 Mynd: EPA - POOL
epa01845007 A handout image taken in August 2009 and released on 02 September 2009 by the greenpeace International shows the Bergs calved from Helheim glacier float in Sermilik Fjord on the south eastern coast of Greenland, an area which is the focus for
 Mynd: EPA - GREENPEACE
Það eru margar mýtur og órökstuddar fullyrðingar um hættur á Norðurslóðum, segir danski stórslysasagnfræðingurinn Rasmus Dahlberg. Hann segir að þó áskoranir séu margar sé ekki víst að þær valdi vandamálum. Þær þurfi að rannsaka svo ekki þurfi illa að fara áður en öryggismál verði útfærð.

Dahlberg, sem hefur síðustu ár skrifað mikið um stórslys í danskri sögu, er meðal þeirra sem vinna að rannsóknarverkefni á vegum Nordress. Það er fimm ára verkefni sem snýr að því að meta hættu og viðbúnaðarstig á Norðurslóðum, og hvernig hægt er að bregðast við eða forðast slys. Einnig á að meta það hvernig samfélög og einstaklingar bregðast við áföllum. Vinna Dahlbergs snýr að því að finna nýjar leiðir til að læra af leitar- og björgunaræfingum á norðurslóðum. Ein slík æfing stendur yfir frá 15. þessa mánaðar fram á mánudag og önnur stærri í byrjun næsta sumars.

Áhyggjur vegna farþegaskipa og olíuborpalla

Mikil fjölgun farþegaskipa sem siglt er um norðurslóðir hefur beint athygli manna að þeirri hættu sem kann að koma upp lendi skip í vanda. Sömu áhyggjum hefur verið lýst vegna olíuborpalla.

„Það er margt óvíst á Norðurslóðum en þeim tengjast líka margar mýtur og órökstuddar fullyrðingar. Við vitum satt að segja ekki hver raunin er og þess vegna stundum við rannsóknirnar," segir Dahlberg. „Ég held að enginn viti þetta í raun og veru. Það sem er augljóst er að við stöndum frammi fyrir mörgum áskorunum. Þess vegna kallast verkefnið okkar Áskoranir á Norðurslóðum, því það er ekki víst að þetta séu vandamál á Norðurslóðum. Við vitum það ekki enn en enn sem komið er eru þetta áskoranir."

Slys tíð á upphafsárum nýrrar tækni

Dahlberg rekur aukninguna nú til loftslagsbreytinga, ef ekki væri fyrir þær væru ekki öll þessi skip á ferð á norðurslóðum. Hann segir þróunina þarna svipaða og þegar nýjar flutningaleiðir opnuðust með tækninýjungum á síðustu öld. Hann rifjar upp að lestaslys hafi orðið tíð um aldamótin 1900 og flugslys á áttunda áratug síðustu aldar. Það hafi orðið til þess að öryggiskerfi voru byggð upp. Nú beinist augu manna að öryggismálum á norðurslóðum, þar sem mikið sé um að vera: Og að sjálfsögðu, vegna lögmálsins um stórar tölur, gerist eitthvað slæmt."

„Vandamálið er að það er ekki mörg atkvæði að fá út af öryggismálum. Öryggismál eru óspennandi," segir Dahlberg og leggur áherslu á að vekja ráðamenn til umhugsunar. Þetta birtist meðal annars í því að árangurinn af átaki í öryggismálum sé ekki sýnilegur. Gangi vinnan upp gerist ekkert.

Stjórnvöld hafa oft ekki gripið til ráðstafana til að auka öryggi fyrr en eftir fjölda slysa eða þegar margir eru látnir. Þetta þarf að breytast að mati Dahlbergs. „Ég held að það sé hluti af ástæðunni fyrir verkefninu og mín persónulega ástæða er sú að ég vil taka þátt í að byggja upp þekkingu og vitund sem verður til þess að færra fólk þarf að deyja áður en góðir hlutir gerast."

Dahlberg telur mikilvægt að greina það sem gæti farið úrskeiðis og afleiðingar þess. Einnig þarf að greina áhrif á innviði. Hann bendir á að með auknum fjölda ferðamanna gætu verkefnin orðið ofviða björgunarsveitum sem byggja á sjálfboðastarfi. Þá myndu einhverjir spyrja hví björgunarsveitir ættu að taka ábyrgð á fólki sem ferðafyrirtæki græða á að senda á jökla. Eins sé það á norðurslóðum, fólkið á ferðasvæðum græðir lítið á ferðalöngunum sem stoppa bara í fjóra tíma í landi og kaupa lítið. „Á sama tíma spyr maður sig: Er sanngjarnt að Grænland, Ísland, Danmörk og Noregur þurfi að verja háum fjárhæðum í viðbúnað vegna leitar- og björgunaraðgerða. Ég ætla ekki að segja hvernig það ætti að vera."

Ein ný þyrla hjálpar ekki ef þúsundir eru í hættu

Fyrsti hluti verkefnisins sem Dahlberg fæst við er að reyna að komast að því hvaða áskoranir kunni að rísa fyrir ráðamenn og innviði samfélaga. Einnig hvað þurfi að gera til að bregðast við. „Þetta snýst ekki um að fjölga þyrlum. Það er vinsæl leið til að nálgast þetta. Stundum bregðast ráðamenn við með því að segja að við þurfum eina þyrlu enn," segir Dahlberg. „Ef við erum með farþegaskip að sökkva við austurströnd Grænlands, með tvö, þrjú eða fjögur þúsund manns um borð, er ein þyrla í viðbót ekki nóg."

Dahlberg segir að hættan sé sú að mönnum virðist vandamálið of stórt og stingi höfðinu í sandinn eins og strúturinn.

Æfingar hafa verið skipulagðar nú í september og í maí og júní á næsta ári. Dahlberg segir aðalatriðið ekki hvort fólk klári verkefni sín eða ekki. Honum finnst áhugaverðast að sjá hvernig samskipti fólks eru utan hins formlega ferlis. Oft sé til áætlun um hvernig fara eigi að en fólk bregðist oft við aðstæðum með öðrum hætti en lagt er upp með. Þetta frumkvæði verði að skoða til að meta hvað eigi erindi í áætlanir um björgunaraðgerðir. Eins sé ekki verra að hlutirnir fari úrskeiðis á æfingum. Þá sé hægt að læra af mistökunum áður en til alvörunnar kemur. „Ég vona að þetta mislukkist hressilega vegna þess að við getum lítið lært af æfingu þar sem allt gengur upp."

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV