Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Aska veldur eðjuflóði

19.05.2010 - 14:34
Mynd með færslu
 Mynd:
Eðjuflóðið í Svaðbælisá undir Eyjafjöllum í morgun stafar að öllum líkindum af ösku sem runnið hefur af Eyjafjallajökli, nálægt gígnum. Þetta er mat jarðfræðinga á jarðvísindastofnun Háskólans, sem farið hafa yfir ratsjármyndir sem teknar voru af jöklinum í morgun. Þykkt lag af ösku og gjósku er á þessu svæði á jöklinum og af myndum að ráða virðist það hafa runnið af stað eftir að í það rigndi. Engar breytingar virðast hafa orðið á eldstöðinni sjálfri. Gosmökkurinn stígur nú í sex til sjö kílómetra hæð. Aska fellur af og til í Húsadal í Þórsmörk og þar er komið um sentimetra þykkt lag. Aska féll í Fljótshlíð fram að hádegi.

Veðurstofan varar fólk við að vera á ferð í hlíðum Eyjafjalla, þar sem fyrirvaralaust geta komið eðjuflóð vegna öskufallsins. Menn geta orðið fyrir flóðum af þessu efni, eða þá að efnið getur brostið undan fótum þeirra og þeir hugsanlega komið af stað flóði að sögn Tómasar Jóhannssonar,sérfræðings í ofanflóðum á Veðurstofu Íslands.