Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

ASÍ: Sumarnámskeið geta kostað tugi þúsunda

03.06.2017 - 08:02
Mynd með færslu
 Mynd: commons.wikimedia.org
Sumarnámskeið fyrir börn kosta allt að 84 þúsund krónur, samkvæmt könnun sem verðlagseftirlit ASÍ hefur gert. Mörg námskeiðin reyndust á sama verði og í fyrra. Mesta hækkunin milli ára í könnuninni reyndist 67 prósent.  

 

Börn fara á mismörg námskeið yfir sumartímann. ASÍ tekur tvö dæmi í verðkönnun sinni. Í öðru fer átta ára gamalt barn á eitt fimm daga námskeið allan daginn, annað heilsdagsnámskeið sem endar með útilegu og í tvær vikur hálfan daginn. Heildarnámskeiðskostnaður reyndist vera tæpar 66 þúsund og sex hundruð, fyrir utan greiðslu fyrir gæslu, hressingu og hádegismat.

Í könnun ASÍ kemur fram að ódýrasta námskeiðið, leikjanámskeið hjá Íþrótta- og tómstundaráði Hafnarfjarðar, hafi kostað rétt tæpar fjögur þúsund og fimm hundruð krónur. Dýrasta námskeiðið hafi verið hjá Dale Carnegie á 84 þúsund. Aðeins eitt námskeið hafi lækkað í verði milli ára og reyndist skýringin vera að ekki verði boðið upp á hádegismat líkt og fyrri ár.  
 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV