Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

ASÍ lánar flugfreyjum 100 milljónir vegna WOW

31.03.2019 - 18:30
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Alþýðusamband Íslands ætlar að lána Flugfreyjufélagi Íslands um 100 milljónir til að koma starfsfólki WOW air til aðstoðar. Formaður Flugfreyjufélagsins segir aðstoðina ómetanlega. Vonast er til að greiðslur berist í vikunni. Flugfreyjufélagið missir meira en þriðjung félagsmanna með falli WOW.

Rosalegt högg fyrir Flugfreyjufélagið

Um 1100 manns misstu vinnuna á einu bretti þegar WOW air varð gjaldþrota á fimmtudag. Þar af voru rúmlega 400 flugfreyjur og flugþjónar, allt meðlimir í frekar litlu og sérhæfðu stéttarfélagi, Flugfreyjufélagi Íslands. Og þar til seinnipartinn í dag var allt útlit fyrir að þessi hópur þyrfti að lifa af allan næsta mánuð launalaust.

„Þetta er rosalegt högg fyrir Flugfreyjufélagið. Um þriðjungur félagsmanna þeirra er núna að missa vinnuna, launalaus um mánaðamótin,” segir Drífa Snædal, forseti ASÍ. „Þannig að það var alveg ljóst að Flugfreyjufélagið mundi ekki standa undir því að aðstoða þau. Eins og VR hefur gert, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis og Rafiðnaðarsambandið.” 

Líklega um 230 þúsund krónur á mann

Í dag náðist svo samkomulag um að ASÍ veiti félaginu um 100 milljón króna lán, en ASÍ geri síðan kröfu í þrotabú WOW. Það gerir um 230 þúsund krónur á mann eftir skatt. Á morgun verður launabókhald þrotabúsins skoðað til að fá nákvæmari útreikninga.

„Það er mjög erfitt að horfa framan í stóran hluta félagsmanna með kökkinn í hálsinum og sorgmætt yfir því að félagið sé orðið gjaldþrota og líka yfir því að vera búin að missa þessa skemmtilegu vinnu,” segir Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands.

Tugir hafa hvorki rétt á bótum né lánum

Þau sem voru í fullu námi samhliða vinnu eiga hvorki rétt á atvinnuleysisbótum né námslánum. 

„Þetta virðast vera einhverjir tugir aðila sem falla þarna á milli skips og bryggju. Sem ekkert er hægt að segja til um hver staðan verður, þar sem það er ekkert í kerfinu sem grípur þau. Sem er grafalvarlegt,” segir Berglind.

Til að fá greitt þurfa félagsmenn að undirrita skjal og framselja kröfur sínar í þrotabú WOW air. ASÍ vonast til að greiðslurnar geti borist inn á reikning félagsmanna í vikunni. Berglind segir þetta undirstrika mikilvægi samstarfs stéttarfélaga í landinu. 

„Þessi aðstoð frá Alþýðusambandinu er ómetanleg,” segir hún.