Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

ASÍ hótar verkfalli

26.04.2011 - 12:13
Mynd með færslu
 Mynd:
Viljaleysi atvinnurekenda til að ganga frá kjarasamningum þvingar Alþýðusamband Íslands til að grípa til verkfallsvopnsins. Þetta segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti sambandsins.

Kjaraviðræður Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands sigldu í strand fyrir tæpum tveimur vikum þegar fulltrúar atvinnurekenda kröfðust þess að lausn yrði að fást í sjávarútvegsmálum áður en samið yrði. Hlé var gert á viðræðunum yfir páskana en samninganefnd ASÍ ætlar að fara yfir stöðu mála í dag.

Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, krafðist þess í fréttum í gær að LÍÚ viki frá samningaborði aðila vinnumarkaðarins og sagðist hann vera orðinn langþreyttur á því að vera hafður að ginningarfífli LÍÚ og SA. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, tekur undir orð Guðmundar, enda hafi fulltrúar atvinnurekenda tekið kjarasamninga í gíslingu vegna sjávarútvegsmála rétt fyrir páska. 

Kjaraviðræður hafa nú staðið yfir í næstum hálft ár án árangurs, og segir Gylfi að ASÍ sé farið að huga að aðgerðum, enda sé samningaleiðin nánast fullreynd.

Hann segir að þessi kyrrstaða og þessi pattstaða, sem er komin upp í samningamálunum af hálfu atvinnurekenda, og viljaleysi þeirra til að klára samninga þvingi launþega til að meta stöðuna á ný. Væntanlega verði farið yfir það á fundi samninganefndarinnar í dag. Það gefur augaleið, segir Gylfi, að eina leiðin fyrir Alþýðusambandið til þess að rjúfa þessa kyrrstöðu sé að kalla til félagsmenn og fara að ýta á samninga með aðgerðum.

Aðspurður um hvort hann eigi við verkföll þegar hann tali um aðgerðir segir hann að því miður sé það svo. Kyrrstaðan verði ekki rofin öðruvísi þegar atvinnurekendur neita að ganga til samninga sem liggja nánast efnislega á borðinu vegna einhverra krafna sinna á stjórnvöld.

Þá verði launþegar að skoða hvaða úrræði þeir hafi önnur og það er verkfallsvopnið. Nokkuð ljóst virðist að þess sé þörf eins og málum er háttað.