Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

ASÍ getur ekki lengur treyst á stuðning VR

14.03.2017 - 15:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forysta Alþýðusambands Íslands getur ekki lengur treyst á stuðning forystu VR, segir Ragnar Þór Ingólfsson, nýkjörinn formaður VR. Hann fékk nær tvo þriðju hluta atkvæða í formannskjöri VR. „Mitt framboð var að stórum hluta vantraustsyfirlýsing á núverandi forystu ASÍ og þá hugmyndafræði sem er rekin þar innandyra. Það mun náttúrulega breytast, alla vega hvað mig varðar formanninn, að það bakland innan miðstjórnar er farið.“

„Kosningin og niðurstaðan er mjög afgerandi. Ég þakka fyrst og fremst félagsmönnum að taka þátt og gefa okkur skýr skilaboð um hvert við viljum fara með félagið,“ segir Ragnar Þór. „Mér hefur fundist félagið vera fjarlægt fólkinu og hef viljað færa það nær fólkinu. Mér hefur fundist verkalýðsforystan ekki vera í miklu sambandi við fólkið og sú tilfinningin reyndist rétt og niðurstaðan var mjög afgerandi.“

Stefnan sem Ragnar Þór boðaði í kosningabaráttu sinni er á skjön við þá stefnu sem núverandi stjórn hefur fylgt. „Ég á von á því að við eigum að geta unnið út úr þessum niðurstöðum sem ein heild. Það er alveg ljóst að það var stjórnarkjör líka og margir í stjórninni sem hafa stutt núverandi formann og þessa hugmyndafræði, þessa vegferð sem við höfum verið í en síðan verður stjórnin að koma saman á næsta aðalfundi og ný stjórn að setjast niður,“ segir Ragnar Þór og bætir við: „Ég held að það sé mjög erfitt að hlusta ekki á þessi skýru skilaboð sem koma frá félagsmönnum um breytingar á áherslum VR og félagsins í þessum ytri stefnumálum.“

Ragnar Þór hefur verið gagnrýninn á stefnu ASÍ, meðal annars í vaxtamálum og verðtryggingu. „Ég hef verið mótfallinn þessu SALEK-samkomulagi meðal annars og þessi skilaboð, þessi stóru mál, ytri mál félagsins, ættu vonandi að komast vel til skila inn til ASÍ í dag.“

Síðustu formenn VR hafa orðið skammlífir og allir verið felldir í kosningum. Ragnar vill breyta þessu með því að hugsa meira um vilja fólksins en stefnu annarra. „Ég vona svo sannarlega að þetta verði til þess að það náist meiri friður um félagið og við náum að snúa bökum saman með öðrum stéttum um að bæta kjör okkar allra.“