Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

ASÍ: Fangelsismálastofnun stundar undirboð

08.10.2018 - 14:02
Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd: Viðar Hákon Gíslason - RÚV
Alþýðusamband Íslands telur Fangelsismálastofnun brjóta lög með því að selja út vinnu fanga utan fangelsisins á Kvíabryggju á launum sem séu langt undir kjarasamningum. Fangar á Kvíabryggju taki vinnu af iðnaðarmönnum á svæðinu með undirboði.

Verkefnisstjóri í félagsmáladeild ASÍ skrifaði Fangelsismálastofnun bréf á dögunum þar sem segir að sambandinu hafi borist ábendingar um að stofnunin selji vinnu fanga á Kvíabryggju og að laun þeirra séu langt undir lágmarkslaunum almennra kjarasamninga. Þannig sé verið að taka vinnu af iðnaðarmönnum á svæðinu með því að bjóða fram starfsmenn fyrir óeðlilega lagt verð.

Í bréfinu er farið fram á ýmis svör, meðal annars hver ákveði þetta, eftir hvaða kjarasamningum sé greitt og hversu mikið og til hvaða stéttarfélags greiðslur renni. Auk þess er spurt ráðningarsamninga og launaseðla. Í svari frá sviðsstjóra fullnustusviðs Fangelsismálastofnunar er vísað lög um fullnustu fanga þar sem kveðið er á um rétt þeirra og skyldu til að stunda vinnu. Forstöðumaður ákveði hvað sé gert og í samráði við stofnunina hvort vinnan fari fram utan fangelsis. Þetta sé liður í einu helsta hlutverki fangelsisins, sem sé betrun fanga, en þar sé vinnan mjög mikilvæg. Vinna utan fangelsis geti tekið frá einum degi upp í nokkrar vikur. Yfirleitt séu þetta störf sem erfitt sé að manna og vinnuveitendur því óskað liðsinnis.

Rukka 800 krónur á tímann fyrir vinnu fanganna

Sviðsstjórinn segir fangelsisyfirvöld meðvituð um að taka ekki vinnu af iðnaðarmönnum. Fangarnir fái ekki greidd laun samkvæmt kjarasamningum, heldur þóknun sem sé 415 krónur á tímann, en fangelsið rukki 800 krónur, mismunurinn sé vegna fyrirhafnar og kostnaðar. Deildarstjóri lögfræðideildar ASÍ er ósammála túlkun Fangelsismálastofnunar og telur að fangelsi hafi ekki heimild til að selja vinnu fanga út langt undir taxta. Lögin og greinargerð með þeim geri ráð fyrir því að fangi sem vinnur utan fangelsis fái greidd skattskyld laun. Kjarasamningar gildi og engar heimildir séu í þeim eða lögum til að ákveða laun með öðrum hætti.

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV