„Ég lokaði mig einn af í sumarbústað í lok febrúar og var þar eiginlega út mars að semja, reyndar með einstaka pásum,“ segir Ásgeir í Popplandi um kveikjuna að nýju plötunni. Hann kom svo úr útlegðinni með tíu ný lög í pokahorninu og fljótlega eftir það hófust upptökurnar á breiðskífunni í Hljóðrita. „Ég ákvað að taka bara með mér hljómborð og kassagítar í bústaðinn og takmarka mig við það. Held að lagasmíðarnir hafi orðið markvissari fyrir vikið,“ segir Ásgeir. „Svo notaði ég líka slatta af upptökum sem ég tók upp í bústaðnum.“
En hvernig er að kveðja stúdíóið og halda út í land svona í miðjum upptökuklíðum? „Við leggjum af stað um miðjan júlí, vonandi verður platan langt komin þá,“ segir Ásgeir sem hyggst nýta tækifærið og frumflytja nokkur lög af plötunni í tónleikaferðalaginu. „Ég held að það sé mjög gott að taka smá breik. Maður verður alveg sósaður ef maður er allt of lengi í hljóðverinu. Þegar maður kemur til baka fær maður smá fjarlægð á hlutina,“ segir Ásgeir sem heldur úr höfn með tónleikum í Bæjarbíói í Hafnarfirði 17. júlí og endar förina á því að koma fram í Frystiklefanum á Rifi 1. ágúst.
Tónleikar Ásgeirs um landið verða hljóðritaðir af Rás 2 og brot af því besta af upptökunum verður útvarpað í Konsert á Rás 2 síðar í sumar. Frekar upplýsingar um tónleikaferðina má nálgast hér.