Afterglow ber öll einkenni listamanns sem hefur þróast og dafnað og tekist á við hlutverk sitt sem alþjóðlegur listamaður en eins og alþjóð veit er Ásgeir frá litla þorpinu Laugarbakka og hafði varla stigið fæti til útlanda þegar hann gaf út „Dýrð í dauðaþögn“ haustið 2012. Það átti eftir að breytast og að sögn listamannsins hefur hann varla lengur yfirsýn yfir þau lönd sem hann hefur heimsótt. Áhrif heimshornaflakksins eru auðheyranleg á „Afterglow“ en þar gætir áhrifa frá tónlistarmönnum eins og James Blake og Bon Iver í bland við R&B tónlist og jafnvel sálar- og kirkjutónlist.
Á plötunni hverfur Ásgeir frá daðri sínu við þjóðlagatónlist sem var einkennandi fyrir „Dýrð í dauðaþögn“ og stingur sér í staðinn á bólakaf í melankólíska raftónlist. Enn og aftur vinnur Ásgeir með föður sínum Einari Georgi Einarssyni sem á heiðurinn að nokkrum textum á plötunni en að auki koma þeir Þorsteinn Einarsson og Júlíus Aðalsteinn Róbertsson að textasmíði. Sem fyrr vinnur upptökustjórinn Guðmundur Kristinn Jónsson náið með Ásgeiri við gerð plötunnar.
Spotify url:
https://open.spotify.com/album/4WkDUVZCAjismDfaoq95x9
https://www.facebook.com/asgeirmusic/
https://twitter.com/asgeirmusic
https://www.instagram.com/asgeirmusic/
https://www.youtube.com/asgeirmusic