Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ásdís: „Ég veit að hann gekk of langt“

epa06132297 Asdis Hjalmsdottir of Iceland competes in the women's Javelin final at the London 2017 IAAF World Championships in London, Britain, 08 August 2017.  EPA/IAN LANGSDON
 Mynd:  - EPA

Ásdís: „Ég veit að hann gekk of langt“

12.01.2018 - 17:18
Ásdís Hjálmsdóttir, ein fremsta frjálsíþróttakona landsins, á eina af þeim frásögnum sem birtust með yfirlýsingu íþróttakvenna um kynbundið ofbeldi í heimi íþrótta. Ásdís segir að nuddari sem hún hafi farið til á HM í frjálsum íþróttum í Moskvu fyrir fimm árum hafi gengið of langt. Nuddarinn var á vegum mótshaldara og atvikið gerðist tveimur dögum áður en hún átti að keppa fyrir hönd Íslands.

Ásdís er önnur konan sem stígur fram undir nafni en áður hafði Hólmfríður Gunnarsdóttir, knattspyrnukona, greint frá áreitni sem hún mátti þola af hálfu þjálfara síns hjá norska knattspyrnuliðinu Avaldsnes.  Frásögn Hólmfríðar er orðin að fjölmiðlamáli í Noregi.

Ásdís staðfestir í samtali við mbl.is að hún eigi frásögnina sem birtist í heild sinni hér að neðan. Atvikið hafi orðið til þess að hún hafi ekki þegið meðhöndlun frá mótshöldurum fyrir HM í Peking fyrir þremur árum. Hún segist hafa bent Frjáslíþróttasambandinu á þetta en fengið þau svör að ekki séu til peningar til að senda nuddara með keppendum. 

Frásögn Ásdísar:
Mig langar til að byrja á því að hrósa ykkur öllum sem hafið deilt ykkar sögu hvort sem það var undir nafnleynd eða ekki. Það er hræðilegt að sjá hversu algengt það er að íþróttakonur verði fyrir allskonar áreiti og hversu alvarlegt það getur orðið.

Ég myndi telja mig sem eina af þessum "heppnu" en það er bara vegna þess að ég hef aldrei lent í neinu alvarlegu. Það þýðir samt ekki að ég hafi aldrei upplifað kynferðislegt áreiti sem hefur farið yfir strikið. Mig langar að deila með ykkur sögu sem var mjög alvarleg vegna þess á hvaða tímapunkti þetta gerðist. Fyrir nokkrum árum keppti ég á stórmóti í frjálsum og líkt og tíðkast var hvorki sendur sjúkraþjálfari né nuddari með okkur. Þetta skiptið var að sjálfsögðu engin undantekning.

Ég þurfti hinsvegar meðferð fyrir mótið svo ég neyðist til að fara til nuddara sem mótshaldari útvegar. Hafið í huga að þetta er nokkrum dögum áður en ég keppi á móti þar sem öll þjóðin ætlast til þess að maður toppi! Þegar ég kem inn í salinn þá hitti ég tvo karlmenn í kringum fertugt og þegar ég segi að ég þurfi nudd sé ég strax glott á þeim báðum og svo skiptast þeir á einhverjum voðalega sniðugum athugasemdum á sínu tungumáli sem tala ekki, sem voru augljóslega um mig.

Annar þeirra er svo nuddarinn minn og ég ætla ekkert að fara í smáatriði en ég hafði farið í nudd svo til vikulega síðustu 12 árin á þessum tímapunkti og ég veit að hann gekk of langt. Hann var mjög lúmskur til að byrja með og fór svo alltaf lengra uppí nárann á mér og fleira í þeim dúr. Allan tímann var hann að spjalla við mig á mjög brotinni ensku og ég myndi helst lýsa því eins og misheppnaðri viðreynslu á bar. Það langversta var svo þegar ég lá á maganum og hann var búinn að taka handklæðið af mér því hann var að nudda á mér rassinn. Allt í einu stoppar hann og tekur báðar hendurnar af mér í smá stund og segir ekki neitt.

Ég hef enga hugmynd um hvað hann var að gera en ég er handviss um að hann hafi tekið mynd af mér á símann sinn sem hann var með í vasanum og alltaf að taka upp með annarri hendinni annað slagið. Eftir herlegheitin þegar við löbbum út og ég var í algjöru sjokki eftir þessa meðferð þá kemur hinn maðurinn sem ég hefði hitt þegar ég kom.

Þeir skiptast aftur á athugasemdum á sínu tungumáli og hlæja og svo mælir hann mig alla út áður en þeir segja að ég þurfi að koma aftur sem fyrst. Það er eiginlega erfitt að koma almennilega í orð hversu ótrúlega niðurlægjandi og óþægilegt þetta var allt saman. Enn þann dag í dag veit ég ekki nema þessi pervert sé með mynd af mér liggjandi á maganum á g-streng í símanum sínum.

Tengdar fréttir

Íþróttir

Sömdu við þjálfara Hólmfríðar um að þegja

Íþróttir

Norðmenn sýna frásögn Hólmfríðar áhuga

Jafnréttismál

Níu íþróttakonur segja frá nauðgun

Íþróttir

Landsliðskona greinir frá stanslausu áreiti