Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Asbest: Metinnflutningur kostar nú tugi lífið

19.02.2018 - 17:02
Mynd: timarit.is / timarit.is
Að minnsta kosti níutíu Íslendingar hafa greinst með banvænt fleiðurþekjukrabbamein. Þar af 45 á árunum 2005 til 2017. Sökudólgurinn er asbest, byggingarefni sem var flutt inn í stórum stíl frá miðbiki síðustu aldar. Árið 1983 var það bannað að mestu hér á landi og árið 2005 tók gildi allsherjarbann við notkun þess á EES-svæðinu en við erum ekki laus við afleiðingarnar. Innflutningur á asbesti var ótrúlega mikill hér miðað við höfðatölu og tíðni fleiðurþekjukrabba virðist enn vera að aukast.

Asbest var einfaldlega best; stórkostlegt byggingarefni, með eindæmum slitsterkt og gott í eldvarnarveggi þar sem það er mjög brunaþolið. Seinna kom í ljós að lungu manna gátu ekki unnið á því frekar en eldurinn. 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Asbest safnast upp í lungunum og getur valdið krabbameini.

Fólk þarf ekki að hlaupa upp til handa og fóta þó það viti af asbesti í vegg eða lögn, það er meinlaust svo framarlega sem ekki er hróflað við því, ekki borað í það eða mulið úr því. Þegar það er gert hættir það þó að vera meinlaust.

Þegar asbest er brotið eða sagað þyrlast upp steinþræðir sem setjast í lungnavefinn, fara hvergi og geta valdið verulegu heilsutjóni, áratugum síðar. Afskaplega gremjulegt að það skyldi hafa þennan ljóta galla, að vera svona krabbameinsvaldandi, segja viðmælendur Spegilsins. 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Kristinn Tómasson, yfirlæknir Vinnueftirlitsins.

Asbest er í raun samheiti yfir nokkrar steintegundir sem allar eiga það sameiginlegt að mynda þráðkennda kristalla. Þeir eru oft mjög fíngerðir, ekki ósvipaðir englahári. Efnið finnst ekki í íslenskri náttúru en í Rússlandi er aftur á móti nóg af því. Skammt frá Yekaterinburg, fjórðu stærstu borg Rússlands er borgin Asbest. Hún er umlukin opnum asbest-námum, þeim stærstu í heimi, flatarmál þeirra er á stærð við borgina sjálfa. Borgarbúar eru stoltir af Asbest-vinnslu fyrirtækisins Uralasbest sem er lifibrauð þeirra og hafa reist ýmis minnismerki úr asbesti.

Iðnaðurinn blómstrar

Mynd með færslu
 Mynd: google maps -  google maps
Asbest í Sverdlovsk-héraði í Rússlandi.

Iðnaðurinn blómstrar, í nýlegri umfjöllun Vice segir að í Rússlandi séu framleidd yfir milljón tonn á ári, um helmingur heimsframleiðslunnar. Önnur framleiðslulönd eru Kína, Kasakstan og Brasilía. Markaðurinn fyrir efnið er ekki lengur í Evrópu, asbestið er selt til þróunarlanda. Indlands, til dæmis. Þar má búast við faraldri fleiðurþekjukrabbameina á næstu áratugum.  

Í námunum í kringum Asbest í Rússlandi er asbestið sprengt upp og við það þyrlast agnirnar í allar áttir. Fréttamaður Vice, Milene Larsson, varð aðhlátursefni heimamanna, þegar hún skoðaði námuna í fyrra, íklædd hlífðargalla og með grímu. Þeir sögðu að það myndi ekkert koma fyrir þá, nema þeir færu að trúa því að asbestið hefði neikvæð áhrif á heilsu þeirra. Þetta snerist um hugarfar. Enginn vildi hallmæla efninu í eyru Larssons og það er kannski ekki skrítið. Fyrirtækið Uralasbest á svo gott sem allan bæinn og fólkið á allt sitt undir fyrirtækinu. Eldri maður sem unnið hafði í asbestsnámu og búið skammt frá henni alla tíð viðurkenndi að fólk hefði orðið veikt en sagði að öllum iðnaði fylgdi mengun, íbúar Asbests hefðu aðlagast, það yrðu aldrei gefnar upp tölur um tíðni krabbameinstilfella af völdum asbests, til þess væru verksmiðjurnar of stoltar.

Lungnalæknirinn ánægður með efnið

Lungnalæknir í Yekaterinburg vildi ekki meina að Asbest væri sérstaklega hættulegt og var með asbest-steina til skrauts á skrifstofunni. Loks ræddi Larsson við Arthur Frank, prófessor í lýðheilsuvísindum við háskólann í Drexel í Philadelphiu. Hann sagði Rússa hætta að safna upplýsingum um fleiðruþekjukrabbamein, þau séu flokkuð með öðrum. Þannig sé reynt að fela vandann. 

Yfir hundrað þúsund dauðsföll á ári

Asbest var líka unnið í Bandaríkjunum, fram til ársins 2002 og í Quebec-fylki í Kanada fram til ársins 2011. Þar er bærinn Asbestos.  Í Norður-Ameríku deyja árlega um fimm þúsund manns úr asbestkrabba. Í Ástralíu var það unnið til ársins 1983 og bannað árið 2003. Þá var Suður-Afríka þriðji stærsti útflytjandi asbests í meira en öld. Til eru bæir sem eiga sér hörmulega sögu, bandaríski bærinn Libby í Montana-fylki er einn þeirra, þar má segja að geisi asbestkrabbafaraldur. Wittenoom í Ástralíu er annar, þar hefur nær enginn búið í áratug, það er talið of hættulegt. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin áætlar að á heimsvísu deyi árlega um 107 þúsund manns af völdum krabbameins og annarra sjúkdóma sem rekja má til asbestmengunar. Þá telur stofnunin að um 125 milljónir um allan heim séu útsettar fyrir asbestmengun í vinnunni. 

Borðdúkar og slökkviliðsbúningar

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Ein af mörgum birtingarmyndum asbests.

Asbest var notað sem íblöndunarefni í steypu, flísar, loftplötur, þakplötur, klæðningu og gólfefni. Það getur litið alls konar út og verið alls konar á litinn. Það er í íbúðarhúsnæði, iðnaðarhúsnæði, fjósum og hlöðum, innveggjum og útveggjum. Það var líka notað í vélar, tæki og búnað þar sem er hiti eða hitamyndun; lagnir, bremsuklossa og diska, svo dæmi séu nefnd. Í Bandaríkjunum var það um tíma notað í slökkviliðsbúninga og fyrr á öldum notuðu Grikkir og Rómverjar það í borðdúka sem mátti stinga í eldinn að máltíð lokinni. 

Mynd með færslu
 Mynd: tímarit.is

Efnið var úti um allt í byggingum hersins á Miðnesheiði, til dæmis í gólfdúkum. En asbest er víðar en á Vellinum. Það naut mikilla vinsælda hér á landi.

Grafið víða um land?

Sigurður Pálsson, rithöfundur, lést úr asbestkrabba í haust. Það var asbest í útihúsunum á Skinnastað í Norður-Þingeyjarsýslu, þar sem hann ólst upp - og ekki bara þar. Asbest var notað í útihús í sveitum víða um land. Einn viðmælandi Spegilsins sagðist telja að á árunum 1960-1980 hafi miklu magni asbests verið fargað í sveitum landsins. Líklega hafi því bara verið hent einhvers staðar. Það hafi ekki verið neinn skilningur á því að efnið væri hættulegt. Hann man eftir því að hafa leikið sér að asbestplötum sem barn, brotið þær sér til gamans. 

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Sigurður Pálsson.

Ljóst er að á Íslandi hefur mikill fjöldi fólks verið útsettur fyrir asbestmengun í gegnum tíðina.

„Einstaklingar í mannvirkjageiranum, einstaklingar sem hafa unnið við vélar og tæki, síðan hafa þetta verið aðstandendur þessara manna. Það er vel þekkt að í gegnum tíðina hafa þeir farið heim í iðnaðarmannagallanum fullum af ryki, þetta ryk smitast þá í heimilisfólk.“  

Segir Kristinn Tómasson, yfirlæknir Vinnueftirlitsins. 

„Það var ekkert spáð í hversu eitrað efnið var“

Einn þeirra sem andað hefur að sér asbestsryki er Auðunn Ásberg Gunnarsson, meistari í bifvélavirkjun og stofnandi Bifvélaverkstæðis Kópavogs. Hann lærði bifvélavirkjun á Reyðarfirði árin 1978 til 1979.

„Það var ekkert spáð í það á þeim tíma hversu eitrað efnið var þannig að maður var ekkert að hugsa um það þó maður væri að anda að sér asbesti úr kúplingum og bremsum, að það gæti haft þessi áhrif á lungun í manni.“ 

Eftir að asbest var bannað vöknuðu menn til vitundar um skaðsemina en áfram komu bílar með asbest-varahlutum inn til viðgerðar og viðhalds. Auðunn man síðast eftir því í kringum 1995. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bifvélavirkjar voru meðal þeirra stétta sem önduðu að sér asbestryki.

Hættan meiri ef fólk er ungt 

Í Danmörku hafa læknar fullyrt að það þurfi ekki að umgangast efnið lengi, ef fólk er útsett fyrir asbestryki í tvær til fjórar vikur getur það orsakað krabbamein sem greinist kannski ekki fyrr en tuttugu til fjörutíu árum síðar og lífslíkurnar þá, um það bil ár. Kristinn segir alla asbestsmengun óholla en líkurnar á því að þróa með sér asbeststengda sjúkdóma aukist eftir því sem fólk er útsett fyrir henni lengur. Hjá börnum og ungmennum er meðgöngutíminni styttri, því segir Kristinn að það þurfi að verja þau sérstaklega fyrir asbestmengun. Þá sé áhættan stóraukin hjá reykingafólki sem verður fyrir asbestmengun. „Það þekkja allir áhættuna af tóbaki, sá sem ekki reykir er með hættuna einn á að fá lungnakrabbamein, ef við tökum dæmið þannig. Ef þú ert reykingamaður ertu með hættuna 20, ef þú ert í asbestmengun og reykingamaður ertu í hættunni 90.“ 

Krefjast kortlagningar

Í Danmörku látast árlega um 400 úr asbesttengdum krabbameinum. Í Danmörku hafa forsvarsmenn byggingariðnaðarins krafist þess að það verði kortlagt hvar asbest er að finna. Kortlagning hefur komið til umræðu hér en ekkert orðið af henni. „Það skiptir máli að við skráum sögu bygginga og förum í það að afla upplýsinga um það hvaða mannvirki þetta eru,“ segir Kristinn.  

Metinnflutningur á mann

Farið var að nota asbest hér á landi strax eftir seinna stríð. Af innflutningstölum má ráða að asbest sé víða. Í rannsókn sem Kristinn Tómasson yfirlæknir Vinnueftirlitsins og fleiri gerðu birtu í Tímaritinu Occupational Medicine and Toxicology, sumarið 2016 segir að innflutningurinn hafi náð hámarki árið 1980, það ár voru flutt inn 3500 tonn, 15 kíló á hvern íbúa. Stór hluti þessa asbests nýttist til einangrunar á heitavatnslögnum. Þegar hættan varð ljós bönnuðu íslensk stjórnvöld asbest, voru með þeim fyrstu sem það gerðu. Það dró mjög úr innflutningi eftir að bann var sett árið 1983 en árið 1990 fór hann að aukast aftur, náði 800 tonnum árið 1992. Síðan hefur það einungis verið flutt inn í snefilmagni. Á Íslandi var magn innflutts asbests á hvern íbúa með því mesta sem gerðist í Evrópu og tíðni krabbameina sem rekja má til asbests er hærri en í nágrannalöndum okkar og fer hækkandi. Alls hafa um 90 greinst með fleiðurþekjukrabba frá því skráning hófst árið 1965. Þar af um helmingur á síðastliðnum 13 árum. Fleiri karlar hafa greinst en konur, 69 á móti 17. Hugsanlega veikjast þó mun fleiri hér af völdum asbests. 

„Heildaryfirsýn yfir þá sem veikjast af völdum asbesttengdra sjúkdóma höfum við ekki. Fleiðurþekjuæxli er bara ein birtingarmynd, það er líka til birtingarmyndin steinlunga og ýmis önnur krabbamein til viðbótar, þannig að við höfum ekki heildarmynd af fjölda þeirra sem hafa fengið asbesttengda sjúkdóma eða asbesttengdan dauðdaga.“ 

Þetta er sjaldgæft krabbamein en í rannsókn Kristins segir að magn asbests sem flutt var inn á mann hér hafi verið ótrúlegt og að tíðni asbestskrabba sé hærri en í Evrópuríkjum almennt. Asbestbannið hafi kannski ekki verið jafn áhrifaríkt hér og annars staðar í Evrópu. Í rannsókninni segir að aukin tíðni þessa krabba gæti að hluta til skýrst af því að læknar séu orðnir betri í því að greina þetta krabbamein. Kristinn er varfærinn, segir hugsanlegt að skráning hér sé betri en annars staðar. Líklega sjáum við þó áfram allnokkurn fjölda þessara meina hér næstu tíu árin. „Eftir það, í ljósi þess að það tekur 20 - 40 ár að veikjast af slíkum asbesttengdum kvillum býst maður við því að eftir tíu ár héðan í frá dragist þetta niður og hætti vonandi alveg.“