Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ásakar Rússa um að beita sér í Úkraínu

28.08.2014 - 21:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Barack Obama Bandaríkjaforseti segir augljóst að Rússar hafi sent herlið inn í Úkraínu. Hann tilkynnti í dag að Petro Porosjenkó, Úkraínuforseti, kæmi í opinbera heimsókn til Bandaríkjanna.

Þetta kom fram í máli Obama þegar hann ávarpaði fréttamenn í Hvíta húsinu fyrir tveimur tímum. Rússar hafa verið ásakaðir um að hafa sent herlið og búnað yfir landamærin til Úkraníu og hafa með beinum hætti lagt aðskilnaðarsinnum lið í baráttu þeirra gegn hersveitum stjórnvalda í Kænugarði.

Obama tók undir þetta í kvöld; augljóst væri að rússneskir hermenn tækju þátt í þessum átökum. Obama sagði ennfremur að í næsta mánuði myndi forseti Úkraínu, Petro Porosjenkó, koma í Hvíta húsið til að ræða ástandið í austurhluta Úkraínu.

Málið var rætt á neyðarfundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í kvöld, þar sem hörð gagnrýni kom fram á framferði Rússa - sem áfram neita þessum ásökunum. Vestrænir leiðtogar ræða nú möguleikann á hertum þvingunaraðgerðum gegn Rússum; það mál verður tekið upp á næsta fundi leiðtogaráðs Evrópusambandsins sem haldinn verður eftir tvo daga.