Árvakur tapaði 284 milljónum

04.09.2018 - 09:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tap Árvakurs sem gefur út Morgunblaðið, mbl.is og útvarpsstöðina K100 hljóðaði upp á 284 milljónir króna á síðasta ári. Það er hátt í sexföld sú upphæð sem útgáfufélagið tapaði árið 2016, þá var tapið 50 milljónir króna.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Þar segir að tekjur hafi aukist um rúm þrjú prósent og numið 3,7 milljörðum króna en gjöld hafi aukist meira, um tæp níu prósent og numið 3,9 milljörðum króna. Samkvæmt fréttinni hækkaði tap fyrir skatta úr 48 milljónum 2016 í 241 milljón 2017. Þegar tekið er tillit til annarra liða nemi tapið 284 milljónum króna í fyrra en hafi verið 50 milljónir árið áður.

Haraldur Johannessen, ritstjóri og framkvæmdastjóri, segir að rekstur einkarekinna fjölmiðla sé erfiður um þessar munir eins og sést hafi af umræðu á vettvangi ríkisins um að laga rekstarumhverfi þeirra. Þá segir hann að samkeppni við Ríkisútvarpið, erlend samkeppni og hækkandi launakostnaður hafi haft áhrif. Það hafi einnig haft áhrif að fyrirtækið hafi verið að byggja upp nýja starfsemi sem kostað hafi töluvert fé sem væntingar séu um að skili sér í auknum tekjum og meiri hagkvæmni. Þá segir hann að brugðist hafi verið við þessu með auknu aðhaldi í rekstri sem hafi engu að síður áfram verið þungur.

Morgunblaðið hefur eins og aðrir prentmiðlar átt erfitt uppdráttar síðustu ár. Meðallestur þess hefur fallið úr 43,6 prósentum í febrúar 2007 í 25,5 prósent í júlí síðastliðnum, samkvæmt könnunum Gallup. Mbl.is er sem fyrr mest lesni vefur landsins. K100 er með fjórða mestu hlustun útvarpsstöðva samkvæmt nýjustu könnun Gallup, hún er með 4,6 prósent hlutdeild í hlustun allra á aldrinum tólf til 80 ára miðað við hversu mikið fólk hlustar á útvarp og 8,1 prósent hlutdeild meðal fólks á aldrinum tólf til 49 ára.

Leiðrétt 13.53: Í upphaflegri gerð fréttarinnar sagði að 4,6 og 8,1 prósent fólks í aldursflokkunum tveimur hlustuðu á K100. Hið rétta er að stöðin hefur 4,6 og 8,1 prósenta hlutdeild í heildarhlustun, það er að segja miðað við hversu mikið fólk hlustar á útvarp. 26,9 prósent tólf til 80 ára hlustuðu á stöðina í 34. viku og 31,3 prósent fólks á aldrinum tólf til 49 ára.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi