Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Aronofsky syrgir Jóhann: „Hræðilegur missir“

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV

Aronofsky syrgir Jóhann: „Hræðilegur missir“

11.02.2018 - 12:39

Höfundar

Bandaríski leikstjórinn Darren Aronofsky minnist tónskáldsins Jóhanns Jóhannssonar í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í gær. Þar segir hann að Jóhann hafi verið herramaður. „Hann var stórkostlegur samstarfsmaður og nálgaðist hljóð og tónlist á algjörlega einstakan hátt. Þetta er hræðilegur missir,“ segir Aronofsky, sem er þekktastur fyrir kvikmyndirnar Requiem for a Dream, The Wrestler og Black Swan og vann með Jóhanni að kvikmyndinni Mother! sem kom út í fyrra.

Jóhann átti upphaflega að semja tónlist fyrir Mother! en á endanum var ákveðið að sleppa allri tónlist í myndinni og notast eingöngu við tilraunakenndari hljóðmynd. Vitnað er til yfirlýsingar Aronofskys á vef IndieWire. Hér að neðan má sjá sjónvarpsfrétt frá því í október 2016 með viðtali við Aronofsky þegar hann var staddur hérlendis, þar sem hann ræðir meðal annars um Jóhann:

Mynd:  / 

Leikstjóri Theory of Everything segist eyðilagður

Jóhann fannst látinn á heimili sínu í Berlín á föstudag. Fleiri samstarfsmenn hafa minnst Jóhanns síðan fréttir af andlátinu bárust síðdegis í gær, meðal annars breski leikstjórinn James Marsh, sem einnig sendir IndieWire yfirlýsingu. Marsh leikstýrði myndinni The Theory of Everything, sem Jóhann fékk Golden Globe-verðlaun fyrir árið 2015, og The Mercy með Colin Firth í aðalhlutverki, sem var frumsýnd í Bretlandi á föstudag, dánardægri Jóhanns. Jóhann á einnig tónlistina í þeirri mynd.

„Ég er eyðilagður,“ segir Marsh. „Ég hef misst kæran vin og við höfum öll misst hina fallegu tónlist sem hann bar innra með sér. Jóhann var stórkostlegur og einstakur listamaður. Persónuleiki hans lifir í tónlistinni – hún er íhugul, forvitin, fáguð, sérviskuleg, stundum döpur og stundum hnyttin og umfram allt hrein og tær.“

Marsh heldur áfram: „Við áttum í nánu samstarfi um tvær kvikmyndir og höfðum rætt um að vinna saman að fleiri myndum í framtíðinni. En ekki lengur. Ég hef ekki enn getað sætt mig við það. Eða fráfall hans. Menn eins og hann eru fágætir: yfirmáta hæfileikaríkur, góður, indæll og heiðvirður maður.“

Sorg hjá Pet Shop Boys, Portishead og Garbage

Erlendir tónlistarmenn hafa einnig minnst Jóhanns á Twitter, meðal annars breska tónskáldið Max Richter, sem átti lag í kvikmyndinni Arrival, sem Jóhann samdi annars alla aðra tónlist við. Hann segist ætla að hlusta á plötuna Virðulegu forseta í tilefni af þessum vondu fréttum.

Clint Mansell, kvikmyndatónskáld sem hefur unnið mikið með Darren Aronofsky, segist einnig sorgmæddur yfir tíðindunum.

Á Twitter-reikningi bresku hljómsveitarinnar Pet Shop Boys segir að sveitin hafi misst góðan vin. Geoff Barrow úr hljómsveitinni Portishead segist syrgja Jóhann sem hafi gætt fjölda kvikmynda lífi með kraftmikilli tónlist sinni og veitt öðrum innblástur. Hljómsveitin Garbage minnist Jóhanns einnig, sem og bandaríski taktsmiðurinn og rapparinn El-P úr hljómsveitinni Run the Jewels og ástralski tónlistarmaðurinn og tónskáldið Warren Ellis, einn nánasti samstarfsmaður Nicks Cave.

Íslenskir tónlistarmenn syrgja einnig

Íslenskir tónlistarmenn minnast Jóhanns einnig á samfélagsmiðlum. Ólafur Arnalds segir að Jóhann hafi verið einn mesti tónlistamaður samtímans og hann hafi haft mikil áhrif á sig. Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari biður Jóhann að hvíla í friði og segist eiga erfitt með að skilja þessi ótíðindi – Jóhann hafi verið hlýr og einlægur maður með mikla snilligáfu. Páll Óskar Hjálmtýsson þakkar Jóhanni fyrir hans ómetanlegu samfylgd, listaverkin og snilligáfuna.

Tengdar fréttir

Tónlist

Jóhann Jóhannsson látinn