Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi í Hörpu síðdegis, en tónleikarnir verða haldnir þar. Átakið hefur fengið nafnið Stopp - gætum garðsins, og er samvinnuverkefni Aronofskys, Bjarkar, Landverndar og Náttúrverndarsamtaka Íslands. Allir listamenn sem koma að verkefninu gefa vinnu sína.
Þeir tónlistarmenn sem koma fram í Hörpu eru Highlands, Patti Smith, Of Monsters and Men, Samaris, Björk, Mammút og Likke Li.
Yfirlýsing frá Stopp - Gætum garðsins fylgdi fréttatilkynningu um viðburðina. Þar eru meðal annars settar fram kröfur um að Þjórsárver, víðernin vestan Þjórsár og fossarnir í Þjórsá verði verndaðir til allrar framtíðar. Varað er við áformum um virkjun jarðvarma við Mývatn, þess krafist að allar nýjar jarðlínur á Reykjanesi verði lagðar í jörð. Sérstaklega er mótmælt því sem samtökin kalla aðför að náttúruverndarfólki vegna mótmæla í Gálgahrauni, og þess er krafist að frumvarp til laga um brotfall nýrra náttúruverndarlaga verði dregið til baka, og ný lög taki gildi 1. apríl, eins og lögin kveða á um.