Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Aronofsky hrifinn af Andra Snæ

09.06.2013 - 11:48
Mynd með færslu
 Mynd:
Bandaríski kvikmyndaleikstjórinn Darren Aronofsky er staddur á Íslandi til að ná í meira myndefni fyrir kvikmyndina Nóa. Aronofsky hefur einnig gefið sér tíma til að lesa íslenskar barnabókmenntir því hann hvetur fólk til að lesa bókina Bláa hnöttinn eftir Andra Snæ.

Tökur á myndinni fóru fram hér á landi síðasta sumar en Aronofsky sagði á blaðamannafundi í gærdag að hann vildi ná meira af landslagstökum. Ekki væri þó von á neinum leikurum. 

Upphaflega stóð til að þessar tökur færu fram síðasta haust en fellibylurinn Sandy, sem reið yfir New York-borg í október, setti allar tökuáætlanir úr skorðum.  

Aronofsky var mjög duglegur á Twitter í sinni síðustu heimsókn og hefur nú tekið upp þá iðju sína á ný. Þar hrósar hann meðal annars barnabók Andra Snæs Magnasonar, Bláa hnöttinn, og hvetur alla þá sem eiga tíu ára gömul börn til að lesa bókina fyrir þau.

Aronofsky tilkynnti í gær að hann hyggðist styrkja Náttúruverndarsamtök Íslands með fjárframlögum en styrkurinn verður meðal annars notaður til að gefa út bækling um náttúruvernd sem dreifa á til erlendra ferðamanna.