Aron fer upp á við en angistin læsir klónum

Mynd: Aron Can & Elí / Aron Can & Elí

Aron fer upp á við en angistin læsir klónum

05.05.2017 - 09:33

Höfundar

Platan Ínótt er önnur plata Aron Can á tveimur árum og tikkar í flestöll þau box sem hin „erfiða“ plata númer tvö á að gera. Utan að tónlistarlega er hún einkar farsæl. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.  

Það er talað um „hina erfiðu plötu númer tvö“ í poppfræðum og vísar það í erfiðleikana sem geta fylgt því að vinna verk í kjölfar plötu sem sló í gegn. Aron Can stóð frammi fyrir því með þessari plötu en plata hans frá því í fyrra vakti á honum verðskuldaða athygli og hiklaust eitt af því frambærilegasta sem út kom á tónlistarsviðinu á síðasta ári. Í íslenskum rappheimum stendur Aron Can einn, kornungur en er að gera afar áhugaverða hluti, jafnt tónlistarlega sem textalega séð. Og hvernig bregst hann við pressunni sem fylgir þessari plötu óneitanlega? Jú, hann gefur í – á allan hátt. Ínótt er lengri og fyllri en frumburðurinn, hún er flóknari, hlaðnari, einlægari á köflum og angistarfyllri á köflum líka. Þó að Aron sé enn aðeins sautján ára (!) er mikill þroski í þessu verki. Sakleysið sem gaf plötunni frá því fyrra vissan sjarma er horfið, en aðrir kostir koma í staðinn.

Tilfinningarapp

Enn er haldið áfram með tilfinningarapp í anda Drake, blandað með dassi af trappi að hætti Future, Migos og þeirra allra. Rappið stundum í þessum kódín-stíl, eitthvað sem kalla mætti „draf-rapp“, röddin einkar letileg og drafandi og undir nokkurs konar valíumskýi. Röddin er stundum skekkt og skæld, raddleiðréttingarforrit notað í listrænum tilgangi en Aron sveiflast á milli laga þó. Stundum er röddin knýjandi, æst og angistarfull en stundum róleg, full efasemda og til baka. Taktar eru einfaldir og hvassir (sjá More Life með Drake), bassinn þungur og undirspilið oftast einfaldar „ambient“-mottur. Ég verð að hrósa þeim Jóni Bjarna Þórðarsyni og Aron Rafni Gissurarsyni fyrir tónlistina, hún virkar vel út í gegn og er móðins. Fullkomið andlag við rödd Arons um leið og þeir leyfa sér að bregða á leik (sjá orgelið t.d. í „Ekki eins og þeir“).

Mynd með færslu
 Mynd: Aron Can & Elí

Textarnir eru lengri og flóknari en á frumburðinum, það er meira undir einhvern veginn, og Aron hleður öllu upp á borð. Dufl við vímugjafa eru ekki undanskilin og Aron gengur lengst þar með umslaginu, mynd af honum á kafi í reyk og ég geri ekki ráð fyrir að þetta sé venjulegur vindlingareykur. Geisladiskurinn er annars bústinn og vænn; veggspjald, límmiði og textablað fylgir. Vandað.

Sautján

Textarnir koma annars rakleitt úr reynsluheimi sautján ára unglings. Í raun súmmar eftirfarandi lína, úr „Ég meina“ plötuna upp: „Allir mothafuckas vilja vera eins og ég / Veit samt ekki alveg hver ég er / en ég reyni bara að vera fokkin ég“. Algjörar efasemdir í bland við ungæðislega ákveðni einhvern veginn. Þversagnarkenndur hræringur og eitt af mörgu sem er heillandi við þennan hæfileikararíka pilt.

Tengdar fréttir

Tónlist

Aron Can flutti titillag nýrrar plötu í beinni

Tónlist

Fékk leyfi mömmu til að spila á balli

Tónlist

Aron Can með Fulla vasa