Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Árni Páll ráðinn til EES

31.01.2018 - 18:52
Innlent · EES · EFTA · Evrópa
Mynd með færslu
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. Mynd: RÚV
Árni Páll Árnason, fyrrverandi ráðherra og formaður Samfylkingarinnar, hefur verið ráðinn aðstoðarframkvæmdastjóri Uppbyggingarsjóðs EES að tilnefningu íslenskra stjórnvalda. Hann hefur störf í Brussel á morgun, 1. febrúar, að því er fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Ísland, Noregur og Liechtenstein, þau þrjú ríki sem eiga bæði aðild að EFTA, fríverslunarsamtökum Evrópu, og Evrópska efnahagssvæðinu (EES), greiða í uppbyggingarsjóðinn, sem er síðan nýttur í ýmiss konar umbætur og uppbyggingu í þeim 15 ríkjum Evrópusambandsins sem standa lakast í efnahagslegu tilliti: Búlgaríu, Eistlandi, Grikklandi, Kýpur, Lettlandi, Litháen, Möltu, Portúgal, Póllandi, Rúmeníu, Slóvakíu, Slóveníu, Króatíu, Tékklandi og Ungverjalandi.

Árni Páll er lögfræðingur að mennt og sérhæfður í Evrópurétti. Hann var félags- og tryggingamálaráðherra 2009 til 2010 og efnahags- og viðskiptaráðherra 2010 til 2011. Hann sat á þingi frá 2007 til 2016 og gegndi formennsku í Samfylkingunni á árunum 2013 til 2016.

 

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV