Árni Páll: Bjarni hengir Bryndísi

08.02.2015 - 18:44
Mynd með færslu
 Mynd:
Það er lítilmannlegt af fjármálaráðherra að hengja skattrannsóknarstjóra vegna vandræðagangs í skattagagnamálinu. Þetta segir formaður Samfylkingarinnar. Málið sé á ábyrgð ráðherrans.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra gagnrýndi embætti skattrannsóknarstjóra harðlega í fréttum í gær, vegna hugsanlegra kaupa á gögnum um meint skattsvik Íslendinga erlendis. Bjarni sagði að málið hefði þvælst alltof lengi hjá embættinu og að ekki hafi allt staðist sem frá því hefði komið. Skattrannsóknarstjóri verði að rísa undir ábyrgð sinni í málinu. Ekki hefur náðst í Bryndísi Kristjánsdóttur skattrannsóknarstjóra í dag þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, undrast ummæli Bjarna.

„Ég varð mjög hissa því að vandræðagangurinn í þessu máli hefur nú fyrst og fremst verið hjá honum. Hann hefur verið að segja að það kunni að þurfa að breyta löggjöf til þess að hægt sé að nýta gögn af þessum toga. En það hefur ekkert frumvarp komið inn í þingið þar um. Við erum til í að hleypa því í gegnum þingið á einum degi ef hann kemur með það. Hann hefur líka sagt að það þurfi fjárveitingu í þetta. En nú hefur skattrannsóknarstjóri sagt að þau vilyrði sem skattrannsóknarstjóri hefur fengið dugi ekki. Þá er það ráðherrans að tryggja fullnægjandi fjárveitingu. Þannig að ég skil það ekki alveg, hvernig hann fær það út, að vandamálið liggi hjá skattrannsóknarstjóranum. Mér finnst frekar að reynsla síðustu mánaða og missera sýni að það sé vandræðagangur hjá fjármálaráðherranum sjálfum í málinu,“ segir Árni.

Getur ekki farið í fýlu eins og lítill krakki

Bjarni segir að skattrannsóknarstjóri hafi fyrst gefið þær upplýsingar að það ætti að greiða fyrir gögnin með árangurstengdum greiðslum, en það hafi svo reynst rangt og það hafi verið óskað eftir staðgreiðslu. Hann er óánægður með þetta, hefurðu skilning á því?

„Hann þarf auðvitað bara að takast á við veruleikann eins og hann er, hann getur ekki farið í fýlu eins og lítill krakki. Það kann nú bara að vera að seljandinn hafi fylgst með fréttum á Íslandi og það hefur ekki farið framhjá nokkrum manni í landinu undanfarin misseri að fjármálaráðherrann hefur engan áhuga á að gera neitt með þessi gögn. Það kynni þó ekki að vera að seljandinn sé bara búinn að leggja saman tvo og tvo og fá út fjóra, og skilja að hann muni ekki fá eina einustu krónu ef hann á að fá greitt eftir árangri því það eru allar líkur á því þegar gögnin koma að það fari bara ofan í skúffu og ráðherrann geri ekkert með þau.“

Bjarni hefur nú samt lýst því yfir að hann vilji láta kaupa þessi gögn, ekki satt?

„Hann hefur gert það eftir eftirgangsmuni. En hann kemur síðan endalaust með einhver praktísk vandamál á því að halda málinu áfram. Það er á hans ábyrgð og hann ber þunga ábyrgð í þessu máli. Og það verður ekki betur séð núna en að hann sé enn einu sinni að reyna að drepa þessu máli á dreif og nú er hann farinn að hengja embættismenn sem undir hann heyra. Þetta er mjög smátt í sniðum.“

Bjarni sagði líka í gær að ekki væri hægt að greiða fyrir þessi gögn með ferðatöskum fullum af seðlum – er það ekki rétt hjá honum?

„Það þarf bara að fara yfir það, hvað þarf til að kaupa þessi gögn. Þjóðverjar, sem gera ríkari kröfur um meðferð almannafjár, um réttindi almennings, um gildi réttarheimilda, heldur en nokkur önnur þjóð í Evrópu, þeim hefur tekist að kaupa svona gögn og láta það virka. Ég held bara að fjármálaráðherrann verði að hætta að tefja málið, ýta því frá sér og drepa því á dreif, og fara í að leysa það.“

Hvers vegna heldur þú að fjármálaráðherra sé ekki í þvi að reyna að leysa málið?

„Hann verður að svara því. En það er öllum orðið ljóst í landinu að hann er ekki að ganga fram af fullri ákveðni í þessu máli,“ segir Árni Páll.

[email protected]

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi