Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Árneshreppur samþykkir breytt deiliskipulag

17.03.2019 - 14:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hreppsnefnd Árneshrepps hefur samþykkt deiliskipulagsbreytingar sem eru forsenda þess að Vesturverk geti hafið undirbúningsrannsóknir vegna Hvalárvirkjunar. Tólf athugasemdir og umsagnir bárust um deiliskipulagstillöguna en oddviti segir að aðeins smávægilegar breytingar hafi verið gerðar á tillögunni.

Þurftu að endurtaka breytingarferlið

Sveitarfélagið lauk deiliskipulagsbreytingum í fyrra en vegna mistaka voru þær auglýstar tveimur dögum of seint í Stjórnartíðindum og því þurfti að endurtaka ferlið. Breytingarnar voru því auglýstar aftur í lok síðasta árs.

Tólf athugasemdir við breytingar

Breytingarnar felast í 25 kílómetra vegum, efnistökusvæði eru skilgreind sem og vinnubúðir vegna undirbúningsframkvæmda og rannsókna vegna Hvalárvirkjunar. Tólf athugasemdir og umsagnir bárust um breytingarnar. Meðal annars frá Náttúrufræðistofnun sem telur óásættanlegt að fyrirhugaðar óafturkræfar undirbúningsframkvæmdir byggist á rannsóknarleyfi en ekki virkjunarleyfi.

Tillagan samþykkt samhlóða

Sveitarfélagið hefur nú fjallað um og tekið afstöðu til athugasemda og umsagna sem bárust. Þá hafa verið gerðar breytingar á deiliskipulagstillögunni sem oddviti segir smávægilegar. Hreppsnefnd samþykkti tillöguna samhljóða á fundi sínum í vikunni og felur skipulagsfulltrúa að senda skipulagið til yfirferðar hjá Skipulagsstofnun til að geta auglýst það í Stjórnartíðindum, við auglýsingu tekur deiliskipulagið gildi.