Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Árneshreppur einangraður frá umheiminum

21.08.2013 - 13:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Íbúar í Árneshreppi á Ströndum segja að endurteknar truflanir á símasambandi raski allri starfsemi í hreppnum. Íbúar voru nú síðast án símasambands í ríflega tvo sólarhringa, frá mánudegi til dagsins í dag.

Skurðgrafa sleit jarðstrenginn fyrir slysni og við það varð símasambandslaust í Árneshreppi og nágrenni. Ekki tókst að ljúka viðgerð fyrr en í morgun. Sigurrós Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi fjarskiptafyrirtækisins Mílu, segir viðgerðina hafa tafist nokkuð.

„Strengurinn fór í sundur og sveitin varð sambandslaus og í þó nokkurn tíma, sem sagt strengurinn fór svolítið illa við þetta, og gekk erfiðlega að koma honum og hefur gengið erfiðlega að koma honum saman aftur,“ segir Sigurrós. 

Bíða þurfti eftir varahlutum í strenginn að sunnan. Síðan þeir bárust er búið að vinna í því að gera við bilunina. Ítrekað koma upp truflanir á fjarskiptasambandi við hreppinn. Síðast urðu truflanir á örbylgjusambandi í lok júlí. Starfsmenn Mílu vinna að því að reisa nýtt og hærra fjarskiptamastur til að bæta símasamband en íbúar eru að sögn orðnir langþreyttir á tíðum bilunum.

Einangruð frá umheiminum
Starfsmenn í kaupfélaginu lýstu því í samtali við fréttastofu hve bagalegt sé að vera án viðskipta með kort í tvo daga þar sem posar virki ekki. Það valdi röskun á starfseminni og einhverju rekstrartapi. Þá hafa erlendir ferðamenn lent í klandri vegna þess að ekki var hægt að taka eldsneyti vegna sambandsleysis.

Að sögn Evu Sigurbjörnsdóttur, hótelstýru á Hótel Djúpavík, veldur sambandsleysið talsverðum óþægindum. „Það var bæði heimasíminn og gemsinn sem voru úti, og nettengingin þannig að við vorum algjörlega eiginlega einangruð frá umheiminum. Þetta er mjög óþægilegt og það er líka mjög erfitt að sætta sig við það að þeir hafi ekki farið af stað fyrr en hálfum sólarhring eftir að þessi bilun varð,“ segir hún.