Arnarlax stefnir að fiskeldi í Eyjafirði

16.03.2017 - 14:24
Sjókvíar Fiskeldis Ausfjarða í Berufirði
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Arnarlax áformar að setja eldiskvíar á fimm staði í Eyjafirði, fáist til þess leyfi frá Skipulagsstofnun. Framleiða á 10 þúsund tonn af laxi á árí, í sjókvíum norðarlega í firðinum, frá og með árinu 2019. Fyrirtækið hefur nú lagt fram drög að áætlun fyrir umhverfismat, en búist er við að því verði skilað í haust verði áætlunin samþykkt.

Svæðin sem Arnarlax hyggst nýta vestanmegin í firðinum eru rétt við Ólafsfjarðarmúla eða nánar tiltekið við Mígindisfoss og austan við Upsaströnd eða rétt norðan við Dalvík. Austanmegin í firðinum er eitt svæðið rétt undan Látraströnd, annað er við Steindyr og það þriðja er rétt norðan við Grenivík, eins og sést á myndinn hér neðst. Í drögunum segir að notaðar verði sjókvíar úr hæsta gæðaflokki og eiga þær ekki að vera á siglingaleiðum Grímseyjarferjunnar eða Hríseyjarferjunnar.

60-70 ársstörf gætu orðið til vegna framleiðslunnar í Eyjafirði, við eldið sjálft og slátrun fisksins. Þá megi einnig gera ráð fyrir afleiddum störfum í tengslum við framkvæmdir og þjónustu við fiskeldið.

Í drögunum kemur fram að Arnarlax hyggst ekki nota ófrjóan lax í eldinu, þar sem slíkt sé enn á tilraunastigi bæði hér á landi og erlendis. Þá sé það ekki hagkvæmt, þar sem meira sé um afföll og vansköpun geldfiska. Þó verður fjallað um tilraunaeldi á ófrjóum laxi í umhverfismati.

Á síðasta ári sameinuðust fyrirtækin Arnarlax og Fjarðalax, en síðarnefnda fyrirtækið hafði áður stefnt að fiskeldi í Eyjafirði. Þá var ráðgert að setja það upp við Dysnes, nokkuð sunnar í firðinum en nú er stefnt að.  Tillaga að matsáætlun fyrir þá framkvæmd var auglýst, en lengra fór það mál ekki.

Ekki hefur verið gert burðarþolsmat fyrir Eyjafjörð og því er ekki ljóst hversu umfangsmikið fiskeldi getur orðið þar. Arnarlax hefur nú þegar starfs- og rekstrarleyfi fyrir 10 þúsund tonna ársframleiðslu í Arnarfirði, 3 þúsund tonn í Patreksfirði og Tálknafirði, og 1500 tonn í Arnarfirði. Hjá fyrirtækinu starfa nú um 120 manns.

Hér að neðan má sjá það gróflega hvar kvíarnar verða staðsettar.

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi