Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Arkitektaverðlaun Evrópusambandsins tilkynnt

Mynd: lacaton & vassal / https://vimeo.com/archleague

Arkitektaverðlaun Evrópusambandsins tilkynnt

17.04.2019 - 16:00

Höfundar

Í síðustu viku var tilkynnt um handhafa Mies van der Rohe-arkitektaverðlaunanna 2019. Verðlaunin, sem eru nefnd eftir einum þekktasta arkitekt 20. aldarinnar og einum af föður módernismans í arkitektúr, hafa verið veitt af Evrópusambandinu á tveggja ára fresti frá árinu 1988 fyrir framúrskarandi nútímaarkitektúr í álfunni.

Aðalverðlaunin að þessu sinni hlutu frönsku arkitektarnir Lacaton og Vassal ásamt Frederic Druot og Cristophe Hutin arkitektum fyrir viðbætur á 530 félagslegum íbúðum í Bordeaux, þremur blokkum sem byggðar voru á sjöunda áratugnum og áætlað hafði verið að rífa.

Yfirleitt hafa það verið áberandi og mikilfenglegar nýbyggingar sem hafa hlotið náð fyrir augum dómnefndarinnar, en meðal fyrri verðlaunahafa eru Peter Zumthor, Rem Koolhaas, Snøhetta, David Chipperfield, og árið 2013 sigruðu Henning Larsen arkitektar og Stúdíó Ólafs Elíassonar auðvitað fyrir hönnun Hörpunnar. Þetta er hins vegar í annað skiptið í röð sem endurhönnunarverkefni hlýtur verðlaunin, en árið 2017 voru verðlaunin veitt fyrir endurbætur á íbúðablokkum í útjaðri Amsterdam. Í báðum þessum verkefnum var íbúðablokkum frá sjötta og sjöunda áratugnum bjargað frá niðurrifi með endurhönnun eða viðbótum sem gerðu þær íbúðahæfari fyrir nútímafjölskyldur.

Í verkefninu í Bordeaux var forsmíðuðum einingum bætt við hliðar blokkanna þriggja og þannig bættust við stórar svalir við hverja íbúð með lokanlegum rennihurðum, svokallaður vetrargarður. Þetta gerði íbúðirnar stærri, bjartari og minnkaði orkunotkun þeirra. „Þetta er svolítið þessi móderníska hugsun að fjöldaframleiðslu og stöðluðum einingum sem er nýtt þarna til þess að endurgera og endurbæta það sem fyrir er,“ segir Hildur Gunnarsdóttir, arkitekt, um verðlaunaverkefnið í viðtali við Víðsjá.

Sérstök áhersla var lögð á að halda kostnaðinum og byggingartímanum niðri, svo íbúar þurftu ekki að flytja út meðan á endurbótum stóð og leiguverð íbúðanna hækkaði ekki þrátt fyrir viðbæturnar. Í rökstuðningi dómnefndarinnar segir meðal annars: „Í stað þess að rífa niður, sem er mjög orkufrekt, áttaði verkkaupinn sig á kostunum við að umbreyta byggingunum þremur. Þetta hefur bætt tilveru fólks án þess að vanmeta fyrra líf þeirra.“

Mynd með færslu
Mynd með færslu
Mynd með færslu