Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Arkitektar vilja opnari þingstörf í nýju húsi

Mynd: RÚV/Stúdíó Granda / RÚV/Stúdíó Granda

Arkitektar vilja opnari þingstörf í nýju húsi

27.01.2017 - 10:51

Höfundar

Alþingismenn eiga að vera sýnilegir vegfarendum utan frá og hver öðrum, segja hjónin og arkitektarnir Margrét Harðardóttir og Steve Christer hjá Studio Granda. Þau eru höfundar vinningstillögu í hönnunarsamkeppni um nýbyggingu á Alþingisreit milli Kirkju- og Vonarstrætis.

Lagskipting sögunnar í útveggjum

Margrét og Steve hafa hannað þekkt kennileiti í Reykjavík, svo sem Hæstarætt Íslands og Ráðhús Reykjavíkur. Við hönnun nýju skrifstofubygginganna á Alþingisreitnum sóttu þau ríkan innblástur í sögu staðarins.

„Hér eru fornminjar frá því fyrir landnám, frá 860. Þær spila svolítið stórt hlutverk í byggingunni,“ segir Margrét.  „Útveggirnir bera mjög keim af þessum fornleifauppgreftri. Hugmyndin  er að halda þessari lagskiptingu áfram í útveggjunum, að minna á það að við erum allt að byggja við þessi lög, við erum alltaf að búa til söguna í rauninni. Þetta er ekki bara lagskipting í jarðlög heldur líka í þjóðfélaginu.“

Gagnsæi í orðsins fyllstu merkingu gegnir líka lykilhlutverki við hönnun byggingarinnar.

„Hver einasti þingmaður fær sinn eigin glugga svo við getum séð hann utan frá,“ segir Steve. „Inni eru allar skrifstofurnar með glerveggjum svo þingmenn eru í beinu augnsambandi við hver annan. Þeir geta ekki falið neitt fyrir hver öðrum. Með þessu vonum við að umræðan í þinginu verði opnari en við höfum upplifað hingað til.“

Gerðu ráð fyrir þessu húsi við hönnun Ráðhússins

Það hefur verið stefnt að því að byggja á Alþingisreitnum allt frá 1981. Margrét og Steve tóku það með í reikninginn þegar þau hönnuðu Ráðhúsið beint á móti fyrir 30 árum.

„Horntjörnin við Ráðhúsið er meðal annars vegna þess að við vissum að það yrði byggt hátt við Vonarstrætið. Þess vegna drógum við Ráðhúsið aðeins til baka svo það yrði eins konar torg þar sem tjörnin er. Þetta hefur allt miðað að þessu skipulagi frá því fyrir 30 árum, það hefur ekki neitt hnikast í því.“

Hjónin benda á að í nágrenni Alþingisreitsins séu margar byggingar frá ólíkum tímum og í ólíkum stíl og reyna að kallast á við það við hönnun hússins og í efnisvali.

„Það sem við höfum reynt að gera er að tengja við alla þessa tíma,“ segir Steve. „Við sleppum ekki undan nútíðinni, en á sama tíma erum við með tilvísun í fornleifar. Við erum hluti af okkar samtíð um leið og við tökum þátt í þessu stóra tímalega samhengi.

Rætt var við þau Margréti Harðardóttur og Steve Christer í Menningunni í Kastljósi. Horfa má á viðtalið hér að ofan.

Tengdar fréttir

Innlent

Vinningstillaga að nýbyggingu á Alþingisreit

Innlent

Kanna fornminjar á Alþingisreit