Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Árið er: Þórir Baldursson – fyrri hluti

Mynd: Þórir Baldursson / Árið er

Árið er: Þórir Baldursson – fyrri hluti

26.03.2018 - 14:00

Höfundar

Árið er Þórir Baldursson (Keflavík - Munchen - New York), fyrri hluti er á dagskrá Rásar 2 á skírdag, á 74 ára afmælisdegi Þóris 29.mars, kl. 16:05. Seinni hluti verður á dagskrá á föstudaginn langa kl. 16:05.

Þórir Valgeir Baldursson fæddist 29. mars 1944 í Keflavík, þar sem hann ólst upp. Farið verður yfir feril þessa fjölhæfa tónlistarmanns í tveimur þáttum, í tilefni af því að um þessar mundir eru 60 ár síðan hann fór að vinna fyrir sér sem tónlistarmaður.

Mynd með færslu
 Mynd: Þórir Baldursson - Árið er
Savanna tríóið fór til London til að koma fram í þætti Magnúsar Magnússonar Tonight Show á BBC sem var sendur út 21. apríl 1965

Í þáttunum eru bæði ný og gömul viðtöl við Þóri og fjölmarga samstarfsmenn hans hérlendis og erlendis, auk þess sem fjölmörg tóndæmi frá árinu 1957 til dagsins í dag fylgja með. Þórir skrapp í mánaðarlanga vinnuferð til Finnlands í upphafi árs 1970 en örlögin höguðu því þannig að hann starfaði erlendis næstu 12 ár. Hann byrjaði á norðurlöndum en fór þaðan til Þýskalands og endaði útrásina í Bandaríkjunum og stærsti hluti þáttanna fer í það að rifja upp þessi tólf viðburðaríku ár Þóris í útlöndum.

Meðal þeirra flytjenda sem koma við sögu í fyrri hluta þáttarins og tengjast Þóri á einn eða annan hátt eru Savanna tríó, Dátar, Hljómar, Heiðursmenn, Ævintýri, Þrjú á palli, Nilsmenn, Nina Lizell, Lee Hazlewood, María Baldursdóttir, Abba, Amol Duul, Rolling Stones, Georgio Moroder og Donna Summer.

Mynd með færslu
 Mynd: Þórir Baldursson - Árið er
Í byrjun árs 1970 fóru Þórir og María systir hans með hljómsveit Karls Lilliendahls til Finnlands og tróðu upp á Hotel Fennia í Helsinki. Hljómsveitin var í einn mánuð í Finnlandi en Þórir ákvað að vera lengur og um sumarið var hann kominn til Stokkhólms

Þegar Þórir hafði haslað sér völl í Munchen árið 1973 leið ekki langur tími þangað til hann var kominn í innsta kjarna tónlistarsenunnar í borginni. Einn af þeim sem Þórir vann náið með var ítalski upptökustjórinn og lagasmiðurinn Giorgio Moroder, sem tók bandarísku söngkonuna Donnu Summer upp á sína arma. 

Þórir spilaði á hljómborð og útsetti strengi á hennar þriðju sólóplötu, A Love Trilogy, sem kom út 1976. Á plötunni er m.a. að finna lagið Could It Be Magic eftir Barry Manilow, sem Þórir sá algerlega um útsetningar á og fékk mikið hrós fyrir.

Donna Summer syngur hér lagið í þýsku sjónvarpi 4. apríl 1976

Þórir átti eftir að vinna með Donnu Summer að næstu tveimur plötum hennar en árið 1977 skildu leiðir þeirra eins og fjallað verður um í síðari hluta þáttarins, sem verður sendur út á Rás 2 á föstudaginn langa.

Mynd með færslu
 Mynd: Árið er - RÚV
Þættirnir eru á dagskrá á Rás 2 á skírdag og föstudaginn langa en lengri útgáfur verða síðan aðgengilegar í hlaðvarpi

Í hlaðvarpi RÚV verður að finna lengri og ítarlegri útgáfu af þáttunum og þar er t.d. mun ítarlegri umfjöllun um afrek Þóris hér á landi.

Dagskrárgerð og samsetning: Gunnlaugur Jónsson og Ásgeir Eyþórsson.