Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ari Eldjárn kominn á kortið í Bretlandi

Mynd: RÚV / RÚV

Ari Eldjárn kominn á kortið í Bretlandi

05.09.2017 - 10:30

Höfundar

Ari Eldjárn sló í gegn á The Fringe Festival í Edinborg, einni umfangsmestu listahátíð í heimi, í síðasta mánuði. Hann sýndi uppistand sitt hátt í þrjátíu sinnum og nær alltaf fyrir uppseldum sal.

„Efnið sem ég flyt á ensku er í raun allt efnið sem ég hef flutt á Íslandi, sem ég hef í gegnum tíðina þýtt annars vegar fyrir erlenda hópa á Íslandi og líka þegar ég hef verið að skemmta á Norðurlöndum. Þannig að þetta er mjög svipuð tilfinning,“ segir Ari Eldjárn um uppistandið sem hann sýndi á Fringe-hátíðinni í Skotlandi. 

Taugatrekkjandi að fara á nýja staði

Langflestar sýningar Ara voru á Monkey Barrel Comedy Club, en auk þess kom hann fram á gestasýningum með ýmsum grínistum, þar á meðal á BBC. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

„Það eina sem ruglar mig kannski er ef ég er að fara á nýjan stað, til dæmis á nýjan klúbb á gestasýningu. Það er taugatrekkjandi því ég er orðinn vanur þessum stað og finnst þetta bara vera eins og Þjóðleikhúskjallarinn, þekki allt og veit hvar allt er geymt. En þegar ég fer á nýjan stað hérna úti, það er eitthvað við það; ég þarf að mæta klukkutíma fyrr til að sjá að hér er klósettið og svona. “ 

Á fundi með samstarfsmanni Eddie Izzard

Grínistinn Bob Slayer kynntist Ara þegar þeir tróðu upp saman í Kaupmannahöfn fyrir þremur árum og deildu íbúð í nokkra daga. 

„Við héldum sambandi og ég bauð honum á The Fringe á hverju ári. Þetta er í fyrsta skipti sem hann gat komið og hann leggur þetta alveg. Hann nýtur sín á hátíðinni. Það gleður mig ósegjanlega.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Grínistinn Bob Slayer.

Slayer segir frammistöðu Ara hafa vakið athygli áhrifamikilla manna, svo sem samstarfsmanns grínistans Eddie Izzards og fulltrúa eins besta uppistandsstaðarins í London. „Þeir eru óðir og uppvægir í hann.  Ég er mjög stoltur af honum.“

Gaukur Úlfarsson fylgdist með Ara á Fringe-hátíðinni í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.