Ardern boðar til kosninga í haust

28.01.2020 - 05:30
New Zealand Prime Minister Jacinda Ardern speaks to media at her electorate office in Aukland, Wednesday, April 24, 2019. Ardern said that she and French President Emmanuel Macron will host a meeting in Paris next month seeking to eliminate acts of violent extremism and terrorism from being shown online. (Jason Oxenham/New Zealand Herald via AP)
Jacinda Ardern á fundi með fréttamönnum í morgun. Mynd: ASSOCIATED PRESS - New Zealand Herald
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands, tilkynnti í morgun að kosið yrði til þings þar í landi 19. september næstkomandi. Ardern fer fyrir minnihlutastjórn Verkamannaflokksins, sem hún fer fyrir, og þjóðernispopúlistaflokksins Nýja Sjáland fyrst, sem saman eru með 55 af 120 þingmönnum. Græningjar, sem eiga átta fulltrúa á þingi, hafa varið stjórnina falli. Nýsjálenski Þjóðarflokkurinn, borgaralegur hægriflokkur, er með flesta fulltrúa á þingi núna, eða 55.

Ardern þykir að mörgu leyti hafa staðið sig vel á kjörtímabilinu, ekki síst í eftirleik hins skelfilega fjöldamorðs í Christchurch í mars í fyrra. Skjót ákvörðun hennar um bann við sjálfvirkum árásarvopnum og innköllun og uppkaup slíkra vopna í kjölfar illvirkisins vakti heimsathygli. Málflutningur hennar á sviði kvenréttinda, loftslagsmála og jafnréttis fyrir alla hefur líka átt góðan hljómgrunn víða um heim.

Heimafyrir á hún sér líka fjölda aðdáenda sem eru hæstánægðir með hennar störf og stefnu. Þar hafa þó ýmis vandkvæði á sviði húsnæðismála, fátæktar, atvinnuleysis og efnahagsmála almennt reynst síður til vinsælda fallin. Skoðanakannanir sem gerðar voru í haust sýndu minnkandi stuðning við hvorttveggja stjórnina og hana sjálfa.

Simon Bridges, formaður Þjóðarflokksins og leiðtogi stjórnarandstöðunnar, hefur sótt að Ardern vegna efnahagsmálanna, en líka vegna landadeilu við Maóría og stefnu hennar í innflytjendamálum, auk þess sem hann hefur harðlega gagnrýnt framkvæmd stjórnarinnar á byssu-uppkaupunum í haust. Samhliða þingkosningunum í september verður haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um tvö umdeild en afar ólík mál: Lögleiðingu kannabisefna og aðstoðar við sjálfsvíg. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi