
Árásir á Kúrda í Sýrlandi „óásættanlegar"
YPG er ein öflugasta hreyfingin í bandalagi nokkurra vopnaðra uppreisnarsveita sem berjast undir merkjum Lýðræðissveita Sýrlands, SDF, sem njóta velvildar og beins stuðnings Bandaríkjamanna í stríðinu gegn Íslamska ríkinu.
Tyrklandsstjórn telur YPG hins vegar hryðjuverkahreyfingu, nátengda Verkamannaflokki Kúrda, PKK, sem árum saman hefur barist fyrir aukinni sjálfstjórn Kúrda í Suðaustur-Tyrklandi.
Í yfrlýsingu bandaríska varnarmálaráðuneytisins segir að einhliða hernaðaraðgerðir í Norðaustur-Sýrlandi séu mikið áhyggjuefni, hver sem í hlut eigi, einkum þar sem bandarískir hermenn gætu verið á svæðinu.
„Við myndum telja allar slíkar aðgerðir óásættanlegar," sagði Sean Robertson, talsmaður ráðuneytisins. Því hafi Bandaríkjaher þegar komið upp nokkrum varðstöðvum á lykilstöðum í Sýrlandi norðanverðu, gagngert til að koma í veg fyrir átök Tyrklandshers og YPG. Þetta var gert þrátt fyrir að tyrknesk stjórnvöld hafi beðið um að það yrði látið ógert.