Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Árás á bílalest fordæmd

19.09.2016 - 22:13
epa04560870 The UN Special Envoy of the Secretary-General for Syria, Staffan de Mistura, speaks during a press conference about Syria, at the European headquarters of the United Nations, in Geneva, Switzerland, 15 January 2015.  EPA/MARTIAL TREZZINI
Staffan de Mistura, erindreki Sameinuðu þjóðanna í málefnum Sýrlands. Mynd: EPA - KEYSTONE
Staffan de Mistura, erindreki Sameinuðu þjóðanna í málefnum Sýrlands, fordæmdi í kvöld árás á bílalest með hjálpargögn í norðanverðu Sýrlandi í dag. Hann sagði þetta svívirðilegt, því menn hefðu lagt mikið á sig til að bílalestin kæmist á leiðarenda til hjálpar almennum borgurum í neyð. 

Bílalestin var á vegum Rauða hálfmánans og flutti hjálpargögn til bæjarins Urum al-Kubrah í Aleppo-héraði í norðanverðu Sýrlandi. Árásin var gerð skömmu eftir að sýrlenskir herinn lýsti yfir að vopnahléi í landinu væri lokið.

Jan Egelend, ráðgjafi Staffans de Mistura, segir að sprengjum hafi verið varpað á bílalestina þegar verið var að afferma bílana. Um 78.000 manns þyrftu á brýnni aðstoð á halda í Urum al-Kubrah og nágrenni.  

Sprengjur eru sagðar hafa hæft 18 af 31 bifreið í bílalestinni og fregnir herma að sprengjur hafi einnig hæft vörugeymslur Rauða hálfmánans í Urum al-Kubrah. Ekki er ljóst hversu manntjón var mikið, en óstaðfestar fregnir herma að minnst tólf hafi látið lífið. 

Jean-Marc Ayrault, utanríkisráðherra Frakklands, fordæmdi einnig árásina í kvöld og sagði hana undirstrika nauðsyn þess að koma á vopnahléi á ný.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV