
Rafmagn er nánast allstaðar komið á aftur eftir mikil vandræði um helgina. í gærkvöld komst það á í Árneshreppi á Ströndum - þá voru þrír og hálfur sólarhringur frá því að rafmagnslaust varð þar um slóðir. Ágústa segir að fólk hafi gengið um til að halda á sér hita og notað prímus til að hella upp á kaffi - þau voru hins vegar kát í gærkvöld, þegar rafmagnið komst á.
Snjóruðningsmenn á Vestfjörðum voru sendir út klukkan sex í morgun, til að ryðja veginn um Ísafjarðardjúp, þar sem fjölmörg snjóflóð hafa fallið. Leiðin hefur verið ófær í sex dagar.
Á annan tug stórvirkra snjóruðningstækja var sendur út í morgun hjá Vegagerðinni á Vestfjörðum, til að opna tvær aðalleiðir, um Ísafjarðardjúp og Barðaströnd. Gunnar Sigurðsson er einn af starfsmönnum Vegagerðarinnar - hann fór út klukkan sex í morgun á snjóblásara og er staddur í Skötufirði - hann hefur farið í gegnum nokkur snjóflóð sem lent hafa á veginum. „Það er dáldið á Sjötúnahlíð og lítilsháttar í Hestfirði og austanmegin í Skötufirði.“
Gunnar segist búast við því að Djúpvegur verði opnaður eftir hádegið - það eru að verða sex dagar síðan vegurinn um Djúp var síðast opinn. Á Barðaströnd er einnig unnið að því að ryðja - en þar kom babb í bátinn í gærkvöld, þegar snjóblásari bilaði - þessi leið verður líklegast ekki opnuð fyrr en á morgun.