Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Ár frá gosi á Fimmvörðuhálsi

21.03.2011 - 22:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Í nótt sem leið var ár liðið frá því eldgos hófst á Fimmvörðuhálsi. Gosið stóð í 24 daga og laðaði að sér tugþúsundir ferðamanna.

Eldgosið á Fimmvörðuhálsi hófst laust fyrir miðnætti, aðfaranótt sunnudagsins 21. mars. Strax var ljóst að þetta var frekar lítið afmarkað hraungos úr liðlega hálfs kílómetra langri sprungu. Um nóttina var gripið til þess að rýma fjölda húsa í Rangárvallasýslum og þurftu um 500 manns að yfirgefa heimili sín vegna flóðahættu en flestir fengu að snúa til baka daginn eftir. Þegar fréttir af gosinu bárust var öll flugumferð í 120 sjómílna radíus frá gosstöðinni bönnuð. Áhrif á flugumferð voru hins vegar hjóm eitt hjá því sem átti eftir að gerast þegar gosvirknin færðist yfir í Eyjafjallajökul.


Það var ekki fyrr en þremur dögum eftir að gosið hófst sem vísindamenn komust á gosstöðvarnar, vegna veðurs, og þá blasti við tilkomumikil sjón sem átti eftir að laða að þúsundir ferðamanna næstu vikurnar. Þennan dag myndaðist um tvöhundruð metra hár hraunfoss þegar hraunstraumurinn fór að renna ofan í Hrunárgil.


Tíu dögum eftir að gosið hófst opnaðist ný sprunga á Fimmvörðuhálsi, um fjögur hundruð metra löng, norðaustur af upprunalega gígnum. Fjöldi fólks var við gosstöðvarnar þegar það gerðist og var svæðið rýmt hið snarasta en fólk var meðal annars flutt í burtu með þyrlum.


Gosið á Fimmvörðuhálsi stóð til 12. apríl og tveim dögum síðar, þann 14. apríl, hófst síðan gos í Eyjafjallajökli sem hafði mun meiri og verri afleiðingar en gosið á Fimmvörðuhálsi.