Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Aphex Twin lætur á sér kræla

APHEX TWIN
 Mynd: Warp records

Aphex Twin lætur á sér kræla

30.07.2018 - 16:10

Höfundar

Breski raftónlistarmaðurinn Aphex Twin minnti á sig um helgina þegar einkennismerki hans, í þrívíddarútgáfu, var spreyjað á veggi tveggja neðanjarðarlestastöðva í London.

Um þetta er fjallað á miðlum eins og Pitchfork og Fact og því er velt upp hvort að von sé á nýrri plötu frá kappanum, en engin yfirlýsing hefur komið frá talsmönnum tónlistarmannsins. Þá liggur heimasíða plötuútgáfu hans, Warp Records, niðri, sem menn velta fyrir sér hvort kunni að vera hluti af kynningarherferðinni. Aphex Twin er mikið ólíkindatól og hefur áður farið óhefðbundnar leiðir í kynningarmálum. Til að mynda var risastór loftbelgur með einkennsmerki tónlistarmannsins látinn sveima yfir London þegar að hans síðasta breiðskífa, Syro, kom út.

Richard D. James, eða Aphex Twin, er sérvitur í meira lagi en hann hefur um langt árabil verið í hálfgerðri guðatölu meðal danstónlistarunnenda, stundum kallaður Mozart raftónlistarinnar. Hann á sér fjölda hliðarsjálfa og um hann ganga ótal gróusögur. Hann á til að mynda að hafa átt skriðdreka, forritað vasareikni til að búa til tónlist þegar hann var sjö ára, búið í yfirgefinni bankahvelfingu og plötusnúðast með sandpappír í stað vínylplatna. Hann vakti fyrst mikla athygli með plötunni Selected Ambient Works 85-92 sem kom út fyrir rúmlega aldarfjórðung síðan en hans síðasta plata, Syro kom út árið 2014, eftir langt hlé.

Tengdar fréttir

Popptónlist

80s endurgerðir slá í gegn

Tónlist

Leyfið börnunum að koma til Boards of Canada

Tónlist

Ástarbréf til táningsára raftónlistarinnar

Tónlist

Aphex Twin snýr aftur!