Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Annie Mist í efstu þremur - Heimsleikarnir

Mynd: Þórhildur Erla / RÚV

Annie Mist í efstu þremur - Heimsleikarnir

06.08.2017 - 12:43
Heimsleikarnir í Crossfit héldu áfram í gær en þeir fara fram í Madison, Wisconson Bandaríkjunum að þessu sinni. Þau Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir, Katrín Tanja Davíðsdóttir, Annie Mist Þórisdóttir, Þuríður Erla Helgadóttir og Björgvin Karl Guðmundsson taka öll þátt í ár.

Ragnheiður Sara sem var um tíma efst í gær er dottin niður í fjórða sæti á meðan Annie Mist er í því þriðja. Katrín Tanja, sem er ríkjandi heimsmeistari í kvennaflokki, er svo í sjötta sæti á meðan Þuríður Erla er þar töluvert fyrir aftan. Björgvin Karl er svo í sjöunda sæti hjá strákunum.

Mynd með færslu
 Mynd: Þórhildur Erla - RÚV

Fyrsta grein gærdagsins var það sem er kallað Strongmans fear en þar þurfa keppendur að bera þunga hluti þvert yfir keppnisvöllinn. Ekki ósvipað bóndagöngunni sem við Íslendingar þekkjum svo vel.

Strákarnir byrjuðu að venju og Björgvini Karli gekk ágætlega í greininni en hann hafnaði í 12. sæti. Katrín Tanja gerði sér svo lítið fyrir og vann greinina hjá stelpunum á meðan Annie Mist var í því þriðja. Ragnheiður Sara sem hafði verið í forystu fyrir fyrstu grein gærdagsins lenti í tíunda sæti og datt þar með niður í fjórða sætið í heildarstigakeppninni. Þuríður Erla kom svo í mark í 23. sæti.

Næsta grein var svokallað Muscle-up clean ladder og þar kom Björgvin í mark í níunda sæti eftir æsispennandi endaspratt gegn hinum ástralska Ricky Garard. Hjá stelpunum var það Ragnheiður Sara sem stóð sig best en hún náði þriðja sætinu. Annie Mist kom þar á eftir í fimmta sæti og Þuríður Erla var í því fimmtánda. Katrínu Tönju gekk vægast sagt illa í þessari grein en hún skilaði sér í mark í 24. sæti.

Síðasta grein dagsins var endurtekning frá opna mótinu sem fram fór í febrúar. Þar þurftu keppendur að gera níu endurtekningar af hnébeygju með axlarpressu og síðan 35 tvöföld sipp. Þetta þurftu keppendur svo að endurtaka tíu sinnum og aftur voru karlarnir fyrstir á svið.

Björgvin Karl kom í mark í 27. sæti og er hann því í raun úr leik hvað varðar forystu á leikunum en fátt virðist geta stöðvað Matt Fraser í því að verja titil sinn en hann vann leikana í fyrra og er með örugga forystu í ár.

Katrín Tanja nái bestum árangri af íslensku stelpunum en hún endaði í 8.sæti á meðan Ragnheiður Sara náði 10 sætinu. Annie Mist hafnaði í 13. sæti og Þuríður Erla í því 25.

Frekar upplýsingar um mótið ásamt myndböndum og fleira má finna á vefsíðu heimsleikanna.