Annar umhverfisverndarsinni myrtur í Mexíkó

Mynd með færslu
 Mynd: Kenneth Dwain Harrelson - Wikimedia
Aðeins nokkrum dögum eftir að stjórnandi verndarsvæðis fyrir kóngafiðrildi í Mexíkó fannst látinn, fannst annar starfsmaður verndarsvæðisins myrtur. Lík Raul Hernandez Romero fannst á sunnudag, með fjölda sára eftir beittan hlut að sögn saksóknara í Michoacan fylki. Hans hafði verið saknað síðan 27. janúar, og sást síðast til hans í bænum Angangueo, í hjarta verndarsvæðis kóngafiðrildanna.

Yfirvöld í Michoacan vildu ekki fullyrða að mál þeirra Hernandez og Homero Gomez Gonzalez, sem fannst ofan í brunni í síðasta mánuði, tengist. Eins vilja þau ekki fullyrða að morðin tengist beint störfum þeirra á verndarsvæðinu.

Gomez var ötull baráttumaður fyrir verndun skóganna. Glæpagengi í Michoacan eru sögð tengjast ólöglegu skógarhöggi í fylkinu. Gomez fékk morðhótun frá skipulögðum glæpasamtökum í fylkinu áður en hann hvarf í janúar. Morðin á þeim Hernandez og Gomez endurvöktu athyglina á ítrekuðum morðum á umhverfisverndarsinnum í Mexíkó. 

Verndarsvæði fiðrildanna er á heimsminjaskrá Unesco. Fiðrildin fljúga yfir þrjú þúsund kílómetra frá Kanada til Mexíkó á ári hverju til að hafa vetrarsetu í furu- og þinskógum Michoacan fylkis. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi