Maðurinn var leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjaness skömmu fyrir þrjú í dag. Þar staðfesti hann framburð sinn hjá lögreglu. Hann var ekki í járnum en huldi andlit sitt með handklæði.
Ekki er algengt að menn þurfi að staðfesta framburð sinn fyrir dómi á þessu stigi máls en samkvæmt upplýsingum fréttastofu var þetta gert þar sem maðurinn er ekki búsettur hér á landi - varúðarráðstöfun, ef svo má að orði komast.
Maðurinn mun þurfa að gefa skýrslu fyrir dómi þegar og ef málið kemur til kasta dómstóla. Og hann verður áfram með réttarstöðu sakbornings þrátt fyrir að vera laus úr haldi. Þetta kemur til af því að ef lögreglan hefur einhvern minnsta grun um að eitthvað í framburðinum geti varpað á hann sök verður hann að hafa slíka stöðu.
Hinn maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald til tveggja vikna og er því einn grunaður um að hafa ráðið Birnu Brjánsdóttur bana.