„Annað hvort vinnuafl eða vandamál“

30.01.2018 - 19:10
Mynd: Tatjana Latinovic / Tatjana Latinovic
Tatjana Latinovic, formaður innflytjendaráðs, segir annað hvort litið á innflytjendur sem vinnuafl eða vandamál og að frekar sé hugað að stefnumótun þegar hið síðarnefnda eigi við. Tíð stjórnarskipti hafa tafið framgang framkvæmdaáætlunar um málefni innflytjenda sem gildir fyrir árin 2016 til 2019. 

„Áætlunin var samþykkt á Alþingi seint 2016. Í vinnunni vorum við að reyna að fanga öll viðfangsefni og koma með konkret, mælanlegar aðgerðir. Hún kallar á mikið samstarf og samvinnu á öllum stjórnsýslustigum. Síðan komu stjórnarslit, tók tíma að skipa nýtt innflytjendaráð, svo komu önnur stjórnarslit og tíminn flýgur. Ég veit að menntamálaráðuneytið vinnur að sínum aðgerðum, það er unnið í félagsmálaráðuneytinu og hjá Vinnumálastofnun en það er vissulega seinkun og næstu skref hjá okkur eru að fara í gegnum áætlunina, sjá hvar ýmsar aðgerðir standa og sjá hvort það sé þörf á breytingu í aðferðafræði til að uppfylla markmiðin sem við höfum sett okkur.“ 

En hefur ríkt stöðnun í innflytjendamálum á þessum góðæristíma, hefur farið minna fyrir þessum málaflokki síðastliðin ár? 

„Það er kannski ekki stöðnun en það er rétt, það held ég stafar af því að við tölum um innflytjendur sem vinnuafl eða vandamál. Ef það er ekkert vandamál er ekkert að tala um. Það sem við höfum heyrt um innflytjendur er um hælisleitendur og viðfangsefni þeim tengd, stundum blásið út úr öllu samhengi miðað við hversu margir innflytjendur búa hér á landi. Það er bara eins og áhuginn kvikni þegar eitthvað er að.“ 

Innflytjendaráð heyrir undir Velferðarráðuneyti. Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Spegilsins segir að félagsmálaráðherra, hyggist á allra næstu dögum óska eftir nýjum tilnefningum í ráðið. Tatjana verður áfram formaður. 

Í framkvæmdaáætluninni frá 2016 er kveðið á um að skipaðir skuli 13 starfshópar, þrjár nefndir, einn vinnuhópur og eitt samstarfsteymi. Sex nefndir eða hópar sem lúta að innflytjendum eru á ábyrgð Velferðarráðuneytisins, enginn þeirra hefur verið skipaður. Velferðarráðið ber líka ábyrgð á aðgerðum sem lúta að flóttafólki. Þar hefur miðað betur, nefnd um málefni flóttafólks var skipuð í mars 2017 og undir hana heyra mörg verkefna tengd flóttafólki sem talin eru upp í framkvæmdaáætluninni. 

Mestar áhyggjur af börnum innflytjenda

Tatjana segir mikilvægt að menntakerfið sé í stakk búið að taka á móti börnum innflytjenda, þau eru sá hópur sem hún hefur helst áhyggjur af. „Fólk af svokallaðri annarri kynslóð, af erlendum ættum eða uppruna sem lítur öðruvísi út og kemur til landsins sem börn, að þau fái að njóta sín í skólakerfinu og standi jafnfætis öðrum krökkum sem eru alíslensk, ég held það sé stórt verkefni.“ 

„Vinna í fullum gangi“

Menntamálaráðuneytið átti samkvæmt framkvæmdaáætluninni að stofna ýmsa starfshópa sem lúta að stöðu barna og ungs fólks af erlendum uppruna en einnig að íslenskunámi fullorðinna innflytjenda, því að auðvelda fólki að fá menntun metna og laða starfstengt nám betur að þörfum þeirra. „Vinna við bætta stöðu innflytjenda er í fullum gangi innan menntamálaráðuneytisins,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra. Starfshópur vinnur að því að styrkja umgjörð íslenskukennslu fyrir fullorðna. Annar hópur sem tekur til starfa á næstunni á að auka vægi móðurmálskennslu hjá nemendum af erlendum uppruna í leik-, grunn- og framhaldsskóla en það hefur sýnt sig að börn með veikan grunn í eigin móðurmáli eiga erfiðara með að læra önnur tungumál. Hún segir óþarft að stofna aðra starfshópa sem getið er í framkvæmdaáætluninni þar sem þegar sé unnið að þeim verkefnum sem þeir áttu að sinna á öðrum sviðum. 

Leggur mikið upp úr íslenskunámi barna

Unnið sé að því að auðvelda innflytjendum að fá menntun sína metna. Þá sé lögð sérstök áhersla á að koma í veg fyrir brotthvarf erlendra ungmenna úr framhaldsskóla og jafna tækifæri til náms. „Því það hefur sýnt sig í rannsóknum, til dæmis í PISA-rannsókninni, að þessi börn eiga oft í meiri erfiðleikum við að ná tökum á náminu, sérstaklega vegna þess að íslenskufærni þeirra er ekki jöfn færni íslensku barnanna, þess vegna þurfum við að leggja sérstaka áherslu á íslenskuna og auka allt sem tengist henni. Svo er annað sem má taka fram, það hefur átt sér stað gríðarleg fjölgun barna af erlendum uppruna á leikskólastiginu, aukning um 27% á fjórum árum, það er mjög mikilvægt að við náum að auka færni þeirra í íslensku og það þarf að auka samvinnu á milli heimilis og skóla til að ná árangri hvað þetta varðar,“ Segir Lilja.  

Niðurstöður úttektar á stöðu barna af erlendum uppruna í íslensku skólakerfi eigi að liggja fyrir á fyrri hluta þessa árs. 

Vinna störf sem ekki eru í samræmi við menntun og hæfni

Í nýlegri skýrslu Vinnumálastofnunar segir þó að mikið sé um að útlendingar vinni störf sem ekki séu í samræmi við hæfni þeirra og menntun. Í skýrslu Vinnumálastofnunar um stöðu Litháa á íslenskum vinnumarkaði sem kom út síðastliðið vor kemur fram að 35% þeirra segjast hafa miklu meiri hæfni en starf þeirra krefst og 22% segjast hafa nokkru meiri hæfni. Um 60% þeirra sem hafa háskólamenntun telja sig hafa miklu meiri hæfni eða menntun en starf þeirra krefst. Hagstofan vinnur að því að taka saman upplýsingar um menntun allra íbúa landsins. Samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir árið 2016 höfðu 34% erlendra ríkisborgara hér á landi einungis grunnmenntun, 44% voru með framhaldsskólamenntun og 23% með háskólamenntun. Um þriðjungur kvenna er með háskólamenntun en aðeins 19% karla. Á árunum 2007 til 2016 dró mjög úr hlutfalli erlendra ríkisborgara með framhaldsskólapróf sem hæstu gráðu, einkum hjá körlum. Framan af vegna þess að það fjölgaði hlutfallslega í hópi háskólamenntaðra en eftir 2012 fyrst og fremst vegna hlutfallslegrar fjölgunar fólks með grunnskólamenntun sem hæsta menntunarstig. 

Me too- sögur sýni fram á skort á menningarnæmni

Tatjana segir Me too-sögur erlendra kvenna hafi varpað ljósi á að það vanti verulega upp á menningarnæmni og færni í þjónustu og samskiptum hér á landi. Sumar sögurnar hafi líka afhjúpað algert skeytingarleysi samfélagsins í garð kvenna af erlendum uppruna. „Þetta er eitthvað sem við þurfum að vinna í sem samfélag, ein aðgerð í áætluninni snýr að fræðslu til starfsfólks stofnana á vegum ríkis og sveitarfélaga um menningarnæmni, menningarlæsi og viðmót gagnvart fólki, ég held við þurfum að gera stórt átak.“ 

Velferðarráðuneytið átti að skipa starfshóp sem átti að vinna að því að efla menningarlæsi opinberra starfsmanna og auðvelda aðgengi innflytjenda að þjónustu. Það hefur ekki verið gert. Annar starfshópur á vegum velferðarráðuneytis átti að semja fyrirmynd að mótttökuáætlun fyrir sveitarfélög og vinna að bættri upplýsingagjöf til innflytjenda. Sá hópur hefur heldur ekki verið skipaður. Vorið 2017 kannaði Fjölmenningarsetur hversu mörg sveitarfélög  hefðu ráðist í það verkefni. Í ljós kom að fjögur höfðu gert það; Reykjavíkurborg, Akureyri, Garðabær og Borgarbyggð. Önnur voru komin skemur á veg. Fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga segir sveitarfélögin bíða eftir því að starfshópurinn hefji störf og skili tillögum, fyrirmyndina skorti. Tatjana segir það grundvallaratriði að sveitarfélög séu tilbúin að taka á móti nýju fólki. „Það eru sum sveitarfélög þar sem fjölgun er gríðarleg eins og í kringum flugvöllinn, í Reykjanesbæ, í Reykjavík og víðar. Ég held það sé mjög mikilvægt að koma þessu af stað sem fyrst, veita fólki upplýsingar, auðvelda því aðgengi að réttum upplýsingum.“ 

Kjósa ekki vegna upplýsingaskorts

Í framkvæmdaáætlun er kveðið á um að Innanríkisráðuneytið setji á fót samstarfsteymi sem á að efla samstarf stofnana sem koma að nýskráningu innflytjenda og gera ferlið skilvirkara og einfaldara fyrir innflytjendur. Þá á Innanríkisráðuneytið í samstarfi við Þjóðskrá og fleiri að sjá til þess að allir sem hingað flytjast fái upplýsingar um stöðu sína og hvar frekari upplýsingar sé að finna. Upplýsingafulltrúi ráðuneytisins segir að fulltrúar ráðuneytis hafi fundað um þetta með fulltrúum Þjóðskrár í dag en gat ekki svarað því hvort samstarfsteymi hefði verið stofnað.

Niðurstöður starfshóps á vegum Reykjavíkurborgar, sem birtar voru í dag, sýna að kosningaþátttaka innflytjenda í sveitarstjórnarkosningum dróst verulega saman frá árinu 2006 til 2014. Árið 2006 nýttu 40% innflytjenda kosningarétt sinn, árið 2014 átti það við um 21%. Formaður hópsins sagði í morgunútvarpinu í morgun að það gengi ekki nógu vel að miðla upplýsingum til innflytjenda.

Starfshópar sem á að stofna samkvæmt áætluninni

Þriðji starfshópurinn sem velferðarráðuneyti átti að skipa sneri að því að efla stuðningsnet kvenna af erlendum uppruna sem búið hafa við heimilisofbeldi, sá fjórði að leggja drög að rannsóknum á ofbeldi í garð innflytjenda og vinna gegn því. Hvorugur þeirra hefur verið stofnaður en í svari ráðuneytisins segir að fundað hafi verið með Kvennaathvarfinu, verið sé að skoða í hvaða farveg verkefnið verði sett. Fimmti starfshópurinn átti að leggja til hvernig auka mætti hlutfall innflytjenda í starfsliði opinberra stofnana, þar hefur ekkert gerst. Þá hefur starfshópur sem átti að stuðla að því að fleirir sérfræðimenntaðir innflytjendur gætu nýtt þekkingu sína á færni á vinnumarkaði og rýna ferli við veitingu dvalar og atvinnuleyfa á grundvelli sérfræðiþekkignar ekki verið stofnaður formlega en skrifstofa lífskjara og vinnumála hjá ráðuneytinu vinnur að því að því að kortleggja stöðuna. Velferðarráðherra stofnaði samkvæmt áætluninni hóp sem starfar að samræmingu móttöku flóttafólks, þá lét ráðuneytið gera könnun á viðhorfum til Innflytjenda síðastliðið haust í samræmi við áætlunina.

Viðhorf þurfi að breytast

Tatjana segir viðhorfin til innflytjenda þurfa að breytast. Það þurfi að hætta að tala um vinnuafl og byrja að tala um fólk. Könnunin sem ráðuneytið lét gera í fyrra, í samræmi við framkvæmdaáætlun, sýndi að viðhorf fólks til innflytjenda lituðust mjög að því hvort það þekkti innflytjendur persónulega. Þeir sem það gerðu voru jákvæðari í garð þeirra.

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi