Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Annað hvort hlær fólk eða hlær ekki“

Mynd: Djók í Reykjavík / RÚV

„Annað hvort hlær fólk eða hlær ekki“

04.04.2018 - 11:30

Höfundar

Dóri DNA skyggnist inn í líf helstu grínista landsins og spjallar við þá um grín frá öllum hliðum í nýjum heimildaþáttum, Djók í Reykjavík, sem hefja göngu sína á morgun, fimmtudaginn 5. apríl.

„Maður veit svo hratt hvort uppistand sé að virka, annað hvort hlær fólk eða hlær ekki,“ segir Saga Garðarsdóttir leikkona, sem er á meðal gesta í fyrsta þættinum. „En í drama þá er fullkomin þögn í salnum og það getur þýtt að það eru allir sofandi og öllum finnst þú ömurlegur, eða það gæti þýtt að það eru allir að hugsa, „þetta er það ótrúlegasta sem ég hef nokkurn tímann séð““.

Mynd með færslu
 Mynd: Djók í Reykjavík
Dóri DNA

Meðal annarra viðmælenda í þáttaröðinni eru Ari Eldjárn, Dóra Jóhannsdóttir, Bergur Ebbi, Steindi jr. og Anna Svava Knútsdóttir. Dóri spyr spurninga eins og hvort einhverjar reglur séu í gríni, hvort gera megi grín að öllu og hvort hægt sé að lifa af gríninu einu og sér.

Í fyrsta þættinum, sem er á dagskrá á RÚV á fimmtudagskvöldið klukkan 20, fer Dóri meðal annars í kirkjugarð með Sögu Garðars, skoðar bíla með Hjamma, mátar gleraugu hjá Önnu Þóru og fer með Þorsteini Guðmundssyni í ormahreinsun. Hér fyrir ofan má sjá brot úr þættinum.