Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Annað barn deyr í umsjá landamærayfirvalda

Mynd með færslu
Ættingjar og ástvinir hinnar 7 ára Jakelin Caal, sem dó í umsjá bandarískra yfirvalda 8. desember, kveðja hana hinstu kveðju. Mynd:
Átta ára drengur frá Gvatemala lést í umsjá bandarískra landamærayfirvalda á jólanótt. Drengurinn lést á sjúkrahúsi í Alamorgordo í Nýju Mexíkó, sem er í hálfs annars tíma akstursfjarlægð frá mexíkósku landamærunum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá landamærayfirvöldum.

Þar segir að landamæravörður hafi orðið þess var á aðfangadag að drengurinn væri veikur. Var hann þá fluttur á sjúkrahús í fylgd föður síns. Þar var hann greindur með ósköp venjulegt kvef, en þegar til stóð að útskrifa hann kom í ljós að hann var með töluverðan hita og því ákveðið að hafa hann undir eftirliti í 90 mínútur til viðbótar. Að þeim liðnum var hann útskrifaður með ávísun á fúkkalyf og íbúprófen.

Nokkrum klukkustundum síðar fór drengurinn að finna fyrir mikilli ógleði og fékk uppköst. Var hann þá fluttur aftur á sjúkrahúsið, þar sem hann lést skömmu síðar. Samkvæmt tilkynningu landamærayfirvalda hefur dánarorsökin ekki verið staðfest enn.

Annað dauðsfallið í þessum mánuði

Drengurinn er annað barnið sem deyr í umsjá bandarískra landamærayfirvalda í þessum mánuði. Hinn 7. desember fékk 7 ára stúlkubarn, sem þá var tiltölulega nýkomið í vörslu landamærayfirvalda, hitakrampa og var flutt á sjúkráhús, þar sem hún lést litlu síðar.

Slæmur aðbúnaður förufólks í fangelsum og öryggisbúðum landamærayfirvalda við mexíkósku landamærin hefur verið harðlega gagnrýndur af mannréttindasamtökum og pólitískum andstæðingum Donalds Trumps, Bandaríkjaforseta.

Stefna Trump-stjórnarinnar í málefnum ólöglegra innflytjenda gengur meðal annars út á að öll þau sem koma ólöglega til landsins eru fangelsuð og sótt til saka. Í langflestum tilfellum eru þau vistuð í afgirtum öryggisbúðum nærri landamærunum, sem margar hverjar eru yfirfullar og illa mannaðar. Bandarísk lög leyfa hins vegar ekki að ung börn séu sótt til saka og þau eru þar af leiðandi heldur ekki færð í fangelsi. Þess í stað eru þau vistuð í sérstökum öryggisbúðum, oft í gömlum vöruskemmum eða afdönkuðu verslunarhúsnæði.

Samkvæmt tilkynningu landamærayfirvalda eru öll börn í slíkum búðum sett í læknisskoðun og fá í framhaldinu þá aðhlynningu sem ástand þeirra kallar á. Dauði þessara tveggja barna í desembermánuði ýtir undir efasemdir um að þessari reglu sé framfylgt sem skyldi.