Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Andstaða við áfengi í búðir eykst milli ára

28.02.2017 - 11:21
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Um þriðjungur Íslendinga er hlynntur því að leyfa sölu léttvíns í matvöruverslunum en meirihluti, eða slétt 58 prósent, eru því andvíg. Andstaða við söluna hefur aukist frá því í byrjun febrúar 2016 þegar hátt í 35 prósent voru því hlynnt og um 52 prósent andvíg. Mikill meirihluti er andvígur sölu á sterku víni í matvöruverslunum. Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu.

Andstaða eykst milli ára

Samkvæmt könnuninni eru örlítið fleiri hlynntir sölu bjórs í matvöruverslunum, eða á bilinu 33 - 34 prósent, en meirihluti er einnig andvígur hér eða rúmlega 56 prósent. Í febrúar í fyrra voru á bilinu 37 til 38 prósent hlynnt sölu bjórs í matvöruverslunum og um helmingur andvígur.

Fáir vilja sterkt vín í búðir

Mikill meirihluti, eða tæplega 75 prósent, er andvígur sölu sterks áfengis í matvöruverslunum. Um 13 prósent eru hlynnt sölunni. Hlutfall þeirra sem vilja geta keypt sterkt vín í matvöruverslunum er hæst meðal yngsta aldursflokksins en minnst meðal þess elsta. 

Tekjulægsti hópurinn hlynntastur bjór í búðum

Andstaða við sölu bjórs í matvöruverslunum eykst eftir því sem svarendur eru eldri. Um 60 prósent þeirra sem eru yngri en 25 ára vilja að bjór sé seldur í búðum en aðeins um 19 prósent þeirra sem eru 55 ára og eldri. Andstaðan er einnig meiri utan höfuðborgarsvæðisins. Tekjulægsti hópurinn er hlynntastur sölu bjórs í búðum, eða tæplega 50 prósent, en meðal tekjuhæsta hópsins eru á bilinu 26 til 33 prósent hlynntir.

Kjósendur Samfylkingar og VG mest á móti

Nærri helmingur kjósenda Bjartrar framtíðar, Pírata og Sjálfstæðisflokks vilja bjór í búðir, eða á bilinu 42 til 46 prósent. Kjósendur Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sýna mesta andstöðu, á bilinu 70 til 75 prósent. Um 60 prósent kjósenda Framsóknarflokksins eru andvígir sölu. Sami marktæki munur var á milli hópa þegar spurt var um sölu léttvíns í mattvöruverslunum er fram kemur í könnun Maskínu. Meirihluti kjósenda allra flokka eru andvígir sölu sterks áfengis í matvöruverslunum. Hlutfallið er hæst meðal kjósenda VG, um 90 prósent, og lægst meðal kjósenda Pírata, 54 prósent. Svarendur í könnun Masínu voru 845 manns og var könnunin gerð á netinu dagana 21. til 27. febrúar 2017.

Umræða á Alþingi í dag

Fyrstu umræðu á Alþingi um frumvarp um sölu áfengis í matvöruverslunum verður fram haldið í dag en málið er mjög umdeilt, meðal annars innan Sjálfstæðisflokksins. Óvíst er hvort meirihluti næst fyrir frumvarpinu.