Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Andstaða landeigenda tefji ekki áform

11.10.2013 - 12:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Rannsóknir á vegum þýska fyrirtækisins Bremenports, vegna áforma um uppbyggingu stórskipahafnar í Finnafirði, hefjast á næsta ári. Sveitarstjóri segir að andstaða landeiganda muni ekki tefja þau áform.

Í gær voru haldnir íbúafundir á Þórshöfn og Vopnafirði þar sem kynntar voru hugmyndir um stórskipahöfn í Finnafirði. Fulltrúar frá verkfræðistofunni Eflu og þýska hafnarfyrirtækinu Bremenport höfðu framsögu. Um 50 til 70 manns mættu á fundina.

Fyrr í haust var haldinn fundur með landeigendum. Hluti þeirra hefur í fréttum RÚV lýst yfir óánægju sinni með áformin og segja að ekki sé hægt að taka landbúnaðarland úr notkun nema að frumkvæði landeigenda.

Bremenport stefnir að því að verja tugum miljóna króna í rannsóknir á svæðinu. Ólafur Steinarsson, bæjarstjóri Langanesbyggðar, segir líklegt að rannsóknir hefjist strax á næsta ári. „Við ætlum að reyna að koma áfram með málið í rannsóknarfasann og svo verður tekin ákvörðun eftir þrjú til fjögur ár um framhald,“ segir hann.

Ekki sé talað um að gera rannsóknir inni á landi þeirra sem séu á móti þessum framkvæmdum. „Enda er ekki verið að framkvæma neitt, það er bara verið að kanna hvort það sé mögulegt að fara í þessa uppbyggingu á þessu svæði. Við náttúrlega leggjum bara upp úr því að vinna þetta áfram með íbúum og með landeigendum og í góðri samvinnu við þá. Fólk hefur rétt á því að vera með og á móti,“ segir Ólafur.