Andsetinn Emmsjé Gauti

Mynd: Emmsjé Gauti / Youtube

Andsetinn Emmsjé Gauti

08.06.2018 - 11:55
Emmsjé Gauti hefur nú haldið tónleika á níu stöðum um allt land á níu dögum, það þýðir að það eru aðeins fjórir dagar eftir af þrettán, á Íslandstúrnum hans 1313. Það er sannarlega komin þreyta í mannsskapinn en enn eru þó allir á lífi þó svo að þeir hafi meðal annars orðið varir við draugagang.

„Við skulum hafa eitt á hreinu, að þetta er geðveikt gaman en það er ekki ennþá búin að koma korters pása,“ segir Gauti, en hann er búinn að spila út um allt land síðustu 9 daga ásamt Kela trommara og Birni Val plötusnúð.

Hann segir erfitt að gera upp á milli þeirra staða sem að þeir hafa spilað á en Jarðböðin við Mývatn hafi verið sérstaklega skemmtileg. Þar gerðu þeir drengir sér lítið fyrir og spiluðu ofaní jarðböðunum.

Þreytan virðist vera farin að segja til sín hjá mönnum en þegar við heyrum í þeim hafa þeir átt viðburðarríka nótt að baki. „Við tjölduðum inni í nótt,“ segir Gauti þó svo að hann sé ekki alveg viss af hverju, „við meikuðum ekki að tjalda úti af því að það var svo kalt en meikuðum heldur ekki að sofa bara á sviðinu inni.“ Ekki nóg með það að hafa sofið í tjaldi innandyra heldur varð Keli var við draugagang.

„Ég vaknaði í nótt við einhver skrítin læti, lít yfir til Gauta og sé að hann situr bara uppréttur og starir í augun á mér í svona tvær mínútur áður en að hann hrekkur við og fer að labba um,“ segir Keli um þessa undarlegu lífsreynslu en drengirnir eru vissir um að draugagangurinn tengist á einhvern hátt wifi lykilorði staðarins og manni, eða hundi, sem að heiti Lukas.

Gauti á eins og áður sagði eftir að spila á fjórum stöðum, í kvöld er það Akureyri, á laugardag Ísafjörður, þeir verða í Flatey á sunnudaginn og svo enda þeir þrettán dag túrinn á Rifi á Snæfellsnesi.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á emmsje.is en þar er líka að finna stutta þætti, einn fyrir hvern dag í túrnum.

Gauti var gestur í Núllinu en hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

Tengdar fréttir

Fokk skátarnir, ég ætla að fara að rappa