Þreytan virðist vera farin að segja til sín hjá mönnum en þegar við heyrum í þeim hafa þeir átt viðburðarríka nótt að baki. „Við tjölduðum inni í nótt,“ segir Gauti þó svo að hann sé ekki alveg viss af hverju, „við meikuðum ekki að tjalda úti af því að það var svo kalt en meikuðum heldur ekki að sofa bara á sviðinu inni.“ Ekki nóg með það að hafa sofið í tjaldi innandyra heldur varð Keli var við draugagang.
„Ég vaknaði í nótt við einhver skrítin læti, lít yfir til Gauta og sé að hann situr bara uppréttur og starir í augun á mér í svona tvær mínútur áður en að hann hrekkur við og fer að labba um,“ segir Keli um þessa undarlegu lífsreynslu en drengirnir eru vissir um að draugagangurinn tengist á einhvern hátt wifi lykilorði staðarins og manni, eða hundi, sem að heiti Lukas.
Gauti á eins og áður sagði eftir að spila á fjórum stöðum, í kvöld er það Akureyri, á laugardag Ísafjörður, þeir verða í Flatey á sunnudaginn og svo enda þeir þrettán dag túrinn á Rifi á Snæfellsnesi.
Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á emmsje.is en þar er líka að finna stutta þætti, einn fyrir hvern dag í túrnum.
Gauti var gestur í Núllinu en hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.