Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Andri Snær í forsetaframboð

11.04.2016 - 19:14
Andri Snær Magnason rithöfundur lýsti í dag yfir forsetaframboði. Hann segist segist vilja hrinda þremur stórum hugmyndum í framkvæmd og líkir hálendisþjóðgarði við útfærslu landhelginnar.

Framboð Andra Snæs hefur legið í loftinu um hríð. Hann boðaði til fundar í Þjóðleikhúsinu í dag þar sem hann kynnti framboðið formlega. Hann segist hafa ákveðið að gefa kost á sér til þess að bera fram ákveðna sýn og þrjár stórar hugmyndir til að hrinda í framkvæmd.

„Ég velti því fyrir mér hvað okkar kynslóð stendur fyrir, hvað vildum við skilja eftir. Hvað vildum við gera sem væri eins og að færa út landhelgina eða stofna lýðveldi eða kjósa konu sem forseta. Mig langaði að bera fram stórar hugmyndir. Þá er hálendisþjóðgarður hugmynd sem ég tel vera ígildi þess að útfæra landhelgina, eitthvað sem þjónar öllum landsmönnum og myndi bera hróður okkar víða. Ég tel að við verðum að klára stjórnarskrárferlið og það verður að eiga rót í þjóðfundinum, vegna þess að það er fallegt ferli, það er nýtt í heiminum og það mun skína um allan heim ef við klárum það með rót í þjóðfundinum. Ferlið hefur laskast en við getum læknað það. Síðan eru það tungumálin vegna þess að ef við sinnum ekki tungumálinu þá sinnum við heldur ekki tungumálum og börn sem flytja hingað geta átt það á hættu að lenda á milli tungumála,“ segir Andri Snær. 

Hann segist ekki smeykur við að kljást við stöðu líka þeirri sem kom upp á Bessastöðum síðastliðinn þriðjudag. 

„Nýja stjórnarskráin er með mjög skýra ferla sem lýsa því hvað gerist og hvernig svona á sér stað þannig að ég er ekkert smeykur við pólitíkina. Ég held að Sigmundur hefði haft gott af því að leggja sig þegar hann kom á Bessastaði um daginn,“ segir Andri Snær Magnason. 

>> 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV