Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Andarnefjan syndir frá Engey

16.08.2018 - 20:38
Mynd: Skjáskot / RÚV
Önnur andarnefjan sem festist í Engey síðdegis losnaði upp úr klukkan átta. Þá hafði flætt mjög hratt að henni um stund. Andarnefjan er þó ekki úr hættu. Fólk fór út á fleytum og fylgdi henni eftir til að tryggja að hún færi rétta leið. Fyrst virtist sem andarnefjan myndi festast á hrygg sem liggur út frá Engey en af því varð ekki. Hún syndir nú meðfram borginni.

Hér að ofan má sjá myndir sem Grímur Jón Sigurðsson myndatökumaður tók þegar andarnefjan losnaði.

Edda Elísabet Magnúsdóttir, doktor í sjávarlíffræði við Háskóla Íslands og sérfræðingur um hvali, sagðist skilja vel að fólk hefði áhuga á að fylgjast með og fara út á bátum. Hún bað fólk samt að taka tillit til hvalsins og halda sig fjarri. Hún sagði að ef fólk færi út á bátum ætti það ekki að koma nær hvalnum en hundrað metra og slökkva á vélinni, ekki bruna fram á. „Best er ef þið getið setið á ykkur, haldið ykkur heima í stofu og leyft hvalnum að komast sína leið.

„Staðan er óvenju góð miðað við að hvalurinn á ekki að geta lifað svona lengi á þurru,“ sagði Edda Elísabet í beinni útsendingu á RÚV.is á níunda tímanum þegar andarnefjan var að losna.

Fólk á hvalaskoðunarskipi og nokkrum bátum fylgdust með björgunaraðgerðum í Engey en héldu sig í nokkurri fjarlægð þegar hvalurinn synti burt.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Þorsteinsson - RÚV
Mynd: Einar Þorsteinsson / RÚV