Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Andarnefjan stefnir á Snæfellsnes

16.08.2018 - 23:02
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
„Við fylgdum henni eftir og sáum að hún var á beinu striki í áttina að Snæfellsnesi,“ segir Sverrir Tryggvason, skipstjóri hjá Special Tours, um ferðir andarnefjunnar eftir að hún losnaði úr fjörunni við Engey á níunda tímanum í kvöld. Sverrir og félagar hans fylgdu andarnefjunni eftir fyrst um sinn til að tryggja að hún myndi ekki lenda í vanda. Þegar komið var út fyrir Akranes og andarnefjan stefndi á Snæfellsnes ákváðu fylgdarmennirnir að snúa við.

Sverrir segir að andarnefjan hafi virst á öruggri leið. Að auki var farið að versna í sjóinn. Því ákváðu menn að snúa við.

Margra klukkutíma barátta

Á öðrum tímanum sá skipstjóri á hvalaskoðunarbátnum Rósinni tvær andarnefjur sem voru strandaðar í fjörunni í Engey. Sverrir fór strax út ásamt tveimur öðrum á rib-báti og byrjaði fólkið að hlúa að hvölunum tveimur. Fljótlega fjölgaði og áður en yfir lauk voru fræðimenn, fólk frá hvalaskoðunarfyrirtækjum, björgunarsveitarfólk, Landhelgisgæslan og fleiri farin að taka þátt í björgunaraðgerðum.

Önnur andarnefjan drapst um klukkan sjö. Hin losnað um 20 mínútur yfir átta og svamlaði burt. Í fyrstu virtist hún ætla að festast á hrygg sem liggur út frá Engey og lenda á hliðinni þar. Fólk sem fylgdi henni eftir á litlum fleytum náðu að ýta við henni þannig að hún hélt áfram för sinni.

Furðu lífseig

Edda Elísabet Magnúsdóttir, doktor í sjávarlíffræði við Háskóla Íslands og sérfræðingur um hvali, sagði í viðtali í beinni útsendingu á RÚV.is upp úr klukkan átta að staðan væri óvenju góð miðað við að andarnefja eigi ekki að geta lifað svona lengi á þurru. Almennt er miðað við að dýrin geti þraukað í tvær klukkustundir á þurru. Í þessu tilfelli liðu rúmar sex áður tókst að bjarga annarri andarnefjunni.