Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ánægjulegt að vakna sem þingmaður

Mynd með færslu
 Mynd: ÞÓL - RÚV
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, er einn þeirra sem hefur verið ýmist inni eða úti af þingi í nótt eftir því sem nýjar tölur bárust. Hann var úti þegar hann fór að sofa en vaknaði sem þingmaður. Þetta gerðist líka fyrir ári.

 

„Þetta er nú kunnuglegt því ég fór að sofa utan þings í fyrra og datt inn á lokametrunum. Þetta er auðvitað ánægjuleg upplifun að fá þessar fréttir þegar maður vaknar,“ segir hann.

Spurður hvort hann hafi farið rólegri að sofa nú en í fyrra, vitandi að þetta gæti orðið niðurstaðan segir Andrés: „Þetta var nú voða svipað. Ég held ég hafi alltaf verið mjög raunsær með stöðuna, miðað við síðustu kannanir. En þarna vinnur með mér að vera í kjördæmi Katrínar sem greinilega nær að hala inn töluvert af atkvæðum þannig að ég verð kjördæmakjörinn þetta árið,“ segir hann.

Spurður hvort hann sé ánægður með útkomu Vinstri grænna segir hann: „Ég hefði nú viljað fá aðeins sterkari kosningu, ég ætla ekkert að neita því. En við vinnum vel úr þessu,“ segir hann.

 

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir