Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ánægjulegt að kynhneigð Billy er ekki augljós

Mynd: RÚV / RÚV

Ánægjulegt að kynhneigð Billy er ekki augljós

12.10.2019 - 10:08

Höfundar

„Myndin gaf mér leyfi til að gera annað en aðrir voru að gera,“ segir Bergur Þórisson sem sá Billy Elliott þegar hann var sjálfur jafn gamall Billy í myndinni. Hann segir myndina tímalausa klassík sem á, að hluta til því miður, jafn vel við í dag og þegar hún var gerð.

Bergur Þórisson tónlistarmaður sá Billy Elliott fyrst þegar hann var á svipuðum aldri og Billy í myndinni. Myndin fjallar um ungan dreng sem á sér draum um að verða dansari en á erfitt með að leyfa sér að uppfylla drauminn af ótta við dóm samfélagsins og fjölskyldu sinnar. Myndin er frá árinu 2000 og er leikstýrt af Stephen Daldry. Bergur tengdi sterk við myndina enda óx hann sjálfur úr grasi í umhverfi þar sem ungir drengi sem ekki voru góðir í handbolta og fótbolta voru dæmdir. Sjálfur var hann lélegur í boltaíþróttum og fékk að finna fyrir því. „Ég var með keppnisskapið en miklu betri í tónlist og listum og slíku,“ segir hann. „Myndin gaf mér leyfi til að gera annað en hinir voru að gera.“

Pabbi Billy í myndinni þarf sjálfur að komast yfir eigin fordóma í myndinni og hans innra ferðalag snerti við Bergi. „Hann fer frá því að vera verkamannagaur sem er pikkfastur í kynjahlutverkinu og áttar sig svo á fegurðinni í listinni,“ segir Bergur sem tengdi við efni myndarinnar á margan hátt. Hann hefur sjálfur farið í gegnum strangt inntökuferli í virtum skólum. „Mér fannst gaman að sjá hvernig þetta var sett fram á góðan hátt. Allt þetta með að krakkarnir séu að spyrja hvort maður sé ekki stressaður og þessi stemning sem myndast, þetta er mjög sérstakt,“ segir hann. 

Hann segist líka ánægður með ákvörðun handritshöfundarins Lee Hall að hafa Billy ekki samkynhneigðan í myndinni. „Það væri svo auðvelt að gera hann samkynhneigðan því hann er dansari en kvikmyndagerðafólkið segir að það skipti ekki máli hver kynhneigð hans er, hvort hann er strákur eða stelpa,“ segir hann. „Auðvitað má Billy gera hvað sem hann vill.“

Birgir er sjálfur ekki hrifinn af tilhneigingu samfélagsins til að setja börn í box með fyrirframákveðnum kynjahlutverkum. „Það er kreatív sprengja í börnum sem má ekki hamla,“ segir hann. „Myndin er tímalaus því þetta á allt við í dag, strákar fara í fótbolta og stelpur leika með dúkkur.“ 

Kvikmyndin Billy Elliott verður sýnd á RÚV í kvöld. Hún er hluti af sýningaröð dansmynda á RÚV sem nefnist Dansást. Þar eru sýndar danskvikmyndir sem eru í sérstöku eftirlæti hjá þjóðinni. Hópur kvikmyndaáhugamanna tekur þátt í verkefninu en einn úr þeim hópi ræðir hverja mynd.

Tengdar fréttir

Dans

Dansást – vinsælustu dansmyndirnar sýndar